Innlent

Ís­land og Palestína gera sam­komu­lag um sam­starf

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Varsen Aghabekian Shahin, utanríkisráðherra Palestínu, skrifaði undir samkomulagið með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra Íslands.
Varsen Aghabekian Shahin, utanríkisráðherra Palestínu, skrifaði undir samkomulagið með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra Íslands.

Ísland og Palestína hafa gert samstarfssamkomulag sín á milli í kjölfar viljayfirlýsingar fjölda ríkja þar sem Ísrael er hvatt til að samþykkja tveggja ríkja lausnina og kallað er eftir afvopnun Hamas.

Arababandalagið, lönd Evrópusambandsins og sautján önnur lönd skrifuðu undir viljayfirlýsinguna á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York um tveggja ríkja lausn.

Í kjölfar yfirlýsingarinnar greindi Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra frá því á Facebook að hún hefði undirritað samstarfssamkomulag milli Íslands og Palestínu sem marki nýjan kafla í tvíhliða samskipum ríkjanna.

„Það var mér bæði ánægjulegt og mikilvægt að hitta Varsen Aghabekian Shahin, utanríkisráðherra Palestínu, á þessum áhrifamikla degi og árétta skýran stuðning Íslands við sjálfstætt og fullvalda ríki Palestínu,“ segir Þorgerður í færslunni.

„Hingað til hefur stuðningur Íslands að mestu farið í gegnum fjölþjóðastofnanir á borð við UNRWA – og mun svo áfram verða – en með þessu skrefi færum við samtalið nær og hyggjumst reyna með beinum hætti að stuðla að því að palestínsk stjórnvöld geti eflt sína innviði,“ sagði hún einnig.

Sagðist Þorgerður fagna því viljayfirlýsingin væri orðin að veruleika og sagði Ísland tilbúið að byggja ofan á hana með markvissu samstarfi á forsendum Palestínumanna.

„Friður byggist á réttlæti. Og réttlátt ríki byggist á traustum stoðum. Þar vill Ísland leggja sitt af mörkum,“ sagði hún að lokum í færslunni sem má lesa í heild sinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×