Lífið

Þór­dís Elva fann ástina í örmum poppstjörnu

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Þórdís Elva virðist yfir sig ástfangin.
Þórdís Elva virðist yfir sig ástfangin.

Rithöfundurinn og baráttukonan Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hefur fundið ástina í örmum kanadísku tónlistarkonunnar og rithöfundarins Jann Arden, sem jafnframt er hlaðvarpsstjórnandi og leikkona.

Þórdís greindi fyrst frá sambandinu fyrr í vikunni þegar hún birti mynd af nýju kærustunni í Story á Instagram þar sem hún heldur í höndina á konu um borð í flugvél. DV greindi fyrst frá því.

Í gærkvöldi fór hún skrefinu lengra og deildi færslu á aðalreikningi sínum þar sem hún birti skjáskot af frétt sem greinir frá ástarsambandinu.

Undir færsluna skrifaði Þórdís: „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum er leyndarmálið ekki lengur leyndarmál.“

Arden svaraði Þórdísi í athugasemdum með gamansömum tón: „Það væri gaman að vita hver þessi ‚ónefnda‘ kona er?“

Þórdís svaraði: „Allt sem ég veit er að hún ætlar að halda áfram þar til hún man varla hver hún var þegar hún lagði af stað – og það skiptir engu máli, því nú er hún mín.“

Þá svaraði Arden með skýrum og hlýlegum hætti: „Já, elskan mín, það er ég.“

Getty

Talsverður aldursmunur er á parinu en Þórdís Elva verður 45 ára á þessu ári en Arden er 63 ára. Þær eru nú staddar í Las Vegas í Bandaríkjunum, þar sem þær skemmtu sér nýverið með bandarísku grínkonunni Chelsea Handler. Þær fóru saman á uppistand og spiluðu Black Jack með henni og fleiri konum í gærkvöldi.

Arden er ein þekktasta söngkona Kanada, meðal annars fyrir lögin „Insensitive“, sem varð hennar stærsti smellur, „Could I Be Your Girl“, „Cherry Popsicle“ og „I Would Die for You“. Hún hefur einnig gefið út metsölubækur.

Í lok maí kom Þórdís Elva fram í hlaðvarpsþætti Jann Arden. Ætla má að samband þeirra hafi þróast eftir það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.