Íslenski boltinn

Sann­færðir um að FH verði í fallbaráttu

Valur Páll Eiríksson skrifar
FH-ingar hafa ekki farið frábærlega af stað og eiga snúna leiki fram undan.
FH-ingar hafa ekki farið frábærlega af stað og eiga snúna leiki fram undan.

Þeir Albert Brynjar Ingason og Arnar Grétarsson sammæltust um það í Stúkunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld að FH-ingar verði í fallbaráttu í sumar. Hafnfirðingar eru í botnsæti Bestu deildar karla og hafa aðeins náð í eitt stig í fyrstu fjórum leikjum liðsins.

Í uppbótartíma Stúkunnar í gær voru bornar upp þrjár spurningar. Sú fyrsta varðaði FH og spurði Guðmundur Benediktsson sérfræðingana tvo:  „Er fallbarátta fram undan í Firðinum?“

„Já. Það er klárt. Ég sé FH fyrir mér, alls fjögur lið í þessum pakka. Nýliðarnir, FH og KA,“ segir Albert Brynjar sem segist ekki sannfærður um KA-liðið þrátt fyrir sigur norðanmanna á FH á sunnudag.

Klippa: FH-ingar í fallbaráttu og Gylfi mestu vonbrigðin

„Þetta var botnbaráttuslagur og ég er ekki enn sannfærður eftir einn sigurleik hjá þeim (KA). Ég ætla að setja FH og KA í þennan pakka,“ segir Albert Brynjar.

„Þeir hafa alveg getað lokað leikjum en hafa ekki gert það. Þeir eru að fara í helvíti erfitt prógram. Mér sýnist þetta aðeins fara í hausinn á mönnum, mér fannst þeir ekki vera rismiklir fyrir norðan. Það eru góðir knattspyrnumenn þarna en til þess að þeir komi sér upp úr þessu þurfa þeir að stíga upp. Þeir verða eitthvað þarna niðri á miðað við leikjaprógramið sem þeir eru að fara í,“ segir Arnar Grétarsson.

Næstu fjórir leikir FH eru við Val, Víking, ÍA og Breiðablik sem öll enduðu á meðal efstu fimm liða deildarinnar á síðustu leiktíð.

Umræðuna má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×