Erlent

Spán­verjar óska eftir um­ræðu um þátt­töku Ísrael í Euro­vision

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Söngkonan Melody tekur þátt í keppninni fyrir hönd Spánar með lagið Esa diva.
Söngkonan Melody tekur þátt í keppninni fyrir hönd Spánar með lagið Esa diva. Getty

Spænska ríkissjónvarpið RTVE hefur óskað eftir umræðu um þátttöku Ísrael í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, í bréfi til Evrópska útvarpssambandsins (EBU). 

Bréfið var sent til Noel Curran, forstjóra EBU, og var óskað eftir rökræðum um þátttöku ísraelska almenningssjónvarpsins (KAN) í Eurovision. Í fréttatilkynningu frá RTVE segir að fulltrúar þar viðurkenni áhyggjur sem ýmsir hópar á Spáni hafi um ástandið á Gasa. France24 greinir frá.

Átökin á milli Ísrael og Palestínu hafa staðið í mörg ár en stríð er nú á milli Hamas og Ísrael á Gasaströndinni. Samið var um vopnahlé í byrjun þessa árs en Ísraelar hófu aftur árásir á Gasaströndina í marsmánuði.

„RTVE telur eðlilegt að EBU viðurkenni tilvist þessarar umræðu og auðveldi samræður meðal EBU-útvarpsstofnana um þátttöku ísraelska almenningssjónvarpsins,“ segir í tilkynningu RTVE.

Söngkonan Yuval Raphael er fulltrúi Ísraels í keppninni í ár en hún er ein þeirra sem lifði af árás Hamas-liða á tónlistarhátíðina Nova 7. október 2023. Hún hafi falið sig í sprengjubyrgi með fimmtíu öðrum en einungis ellefu þeirra lifðu af.

Ýmsir hópar hérlendis hafa einnig kallað eftir því að Ríkisútvarpið beiti sér fyrir því að Ísrael verði vikið úr Eurovision. Hópur sem kallar sig fyrrverandi aðdáendur Eurovision afhentu Stefáni Eiríkssyni, útvarpsstjóra RÚV, undirskriftalista til að mótmæla þátttöku Íslands á meðan Ísrael fær leyfi til að taka þátt.

VÆB bræður taka þátt í Eurovision fyrir hönd Íslands með lagið Róa. Keppnin fer fram í Basel í Sviss og stíga bræðurnir fyrstir öllum á svið þriðjudaginn 13. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×