Leikurinn er spilaður fyrir luktum dyrum vegna tilmæla lögreglu til að verja öryggi leikmanna. Ísraelsku landsliðskonurnar mættu til leiks í lögreglufylgd fyrr í dag. Myndskeið af því má sjá hér að neðan. Leikurinn hófst klukkan 19.30.
Landsliðskonum hafa í aðdraganda leiksins borist ýmis skilaboð. Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, skrifaði til dæmis opið bréf til leikmanna þar sem hann biðlaði til þeirra um að spila ekki leikinn.

„Þær sem mæta ykkur á vellinum hafa ef til vill ekki tekið beinan þátt í skefjalausu morðæði en þær eru hluti af þeirri vél. Farið heldur ekki í grafgötur með að Ísraelsher og þjóðarmorðsstjórnin líta svo á að þeirra landslið sé að vinna að réttlætingu þjóðarmorðsins. Þær mæta inn á völlinn með blóð barna á höndunum og þaðan mun það blóð berast til ykkar þegar boltinn fer á milli – ef þið leikið á móti þeim,“ sagði hann í bréfinu.
Arnar Pétursson, þjálfari liðsins, sagði sniðgöngu á leiknum hafa komið til umræðu á vettvangi HSÍ. Það hefði haft þær afleiðingar að Ísrael færi áfram á HM í stað Íslands.
Mótmælendur veifa palestínska fánanum og rauða spjaldinu fyrir utan Ásvelli.


