Ísraelsk stjórnvöld hafa lagt fram móttillögu sem unnin var í samstarfi við bandarísk stjórnvöld. Guardian hefur eftir ísraelskum miðlum að þarlend stjórnvöld fari fram á að tíu þeirra 24 sem þau telja á lífi á Gasasvæðinu verði látin laus.
Af þeim 251 gísl sem tekinn var föngum í áhlaupi Hamasliða á Ísrael í október 2023 eru 58 enn staddir á Gasasvæðinu. Ísraelsk stjórnvöld telja að 34 þeirra séu látnir.
Haft er eftir Khalil al-Hayya, sem fer fyrir vopnahléssamninganefnd Hamas, að ekki komi til greina að samtökin afvopnist fyrr en hernámi Ísraels á Gasasvæðinu ljúki.
Í síðustu viku hóf Ísrael árásir á Gasa að nýju. Samkvæmt palestínskum heilbrigðisyfirvöldum hefur 921 látið lífið síðan vopnahléð var rofið. Í dag gengust ísraelsk hernaðaryfirvöld við því að hafa hafið skothríð á sjúkrabíla á sunnanverðu Gasasvæðinu. Þeir hafi talið að um „grunsamleg ökutæki“ væri að ræða. Hamas-samtökin lýsa atvikinu sem stríðsglæp og segja að einn hið minnsta hafi látið lífið.
Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum í Gasa hafa rúmlega fimmtíu þúsund Palestínumenn verið drepnir í átökunum og rúmlega 133 þúsund manns særst frá því í október 2023.