Erlent

Arababandalagið fundar um fram­tíð Gasa í dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir íbúar Gasa hafa snúið aftur heim en mikil óvissa ríkir um framtíðina.
Margir íbúar Gasa hafa snúið aftur heim en mikil óvissa ríkir um framtíðina. AP/Jehad Alshrafi

Leiðtogar Arababandalagsríkjanna koma saman í Kaíró í Egyptalandi í dag til að ræða framtíð Gasa. Markmiðið er að komast að samkomulagi um uppbyggingu á svæðinu.

Leiðtogarnir hafa hafnað hugmyndum Donald Trump Bandaríkjaforseta þess efnis að Bandaríkin, eða jafnvel hann persónulega, taki svæðið yfir og geri að einhvers konar ferðamannaparadís. 

Þær fela í sér að íbúar Gasa, Palestínumenn, verði neyddir til að flytjast á brott.

Ísraelsmenn eru hins vegar mjög áfram um tillögu Trump og forsætisráðherrann Benjamin Netanyahu hrósaði framtakinu síðast í gær og sagði hugmyndirnar bera vott um frumleika og framsýni.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að endurreisnin muni kosta yfir 53 milljarða dala.

Uppbygging virðist þó ekki endilega vera í kortunum á næstunni en samkvæmt erlendum miðlum eru bæði Ísraelsmenn og Hamas að undirbúa sig undir að átök hefjist að nýju eftir að fyrsta fasa vopnahlésins lauk um helgina.

Ekkert hefur þokast í viðræðum um fasa tvö, þar sem til stóð að Hamas létu alla gísla lausa og Ísraelsher hyrfi frá Gasa. Greinendur benda á að gíslarnir séu einu tromp Hamas og Ísrael hafi alls ekki í hyggju að segja aðgerðum lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×