Frá þessu er greint í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Þar segir að verkfall Kennarasambandsins í Snæfellsbæ sé ekki dæmt ólögmætt þar sem allir félagsmenn leikskólakennara greiddu atkvæði í því sveitarfélagi um verkfallið.
Kennarasambandið þurfi að láta af verkföllum í þeirri mynd sem þau hafa verið, að Snæfellsbæ undanskildum.
„Sambandið gerir ráð fyrir því að þau börn og kennarar sem hafa verið í verkfalli undanfarna viku mæti því til skóla í fyrramálið, að leikskólanum í Snæfellsbæ undanskildum.“
Verkfall skuli ná til allra starfsmanna stéttarfélags hjá sama vinnuveitenda
Samband íslenskra sveitarfélaga höfðaði mál fyrir Félagsdómi gegn Kennarasambandi Íslands, en þau kröfðust þess að verkföllin yrðu dæmd ólögmæt. SÍS taldi að verkföllin brytu í bága við ákvæði laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Í ákvæðinu felist að verkfall skuli ná til allra starfsmanna stéttarfélags hjá sama vinnuveitanda. „Að mati Sambandsins eru verkfallsaðgerðirnar ólögmætar enda taka þær ekki til allra starfsmanna í viðkomandi stéttarfélagi sem starfa hjá sama sveitarfélagi.“
Samband íslenskra sveitarfélaga höfðaði einnig mál gegn Kennarasambandinu í október, en á öðrum forsendum en í þetta skipti.
Þá töldu þau boðun verkfalls í fjölda skóla ólögmæta þar sem engin kröfugerð lægi fyrir í kjaradeilunni. Félagsdómur dæmdi verkföllin þá lögmæt og sýknaði KÍ af kröfum SÍS.
Sjá: Verkfallsboðun kennara dæmd lögleg
Fréttin hefur verið uppfærð