Skoðun

Menntaðir leik­skóla­kennarar eru ekki munaður – þeir eru nauð­syn

Unnur Guðmundsdóttir skrifar

Við vitum öll að gott leikskólastarf stuðlar að auknum möguleikum foreldra til að stunda vinnu og að leikskólinn sé grunnstoð í samfélaginu sem tryggir að hjól atvinnulífsins snúist. Mikilvægt, en þar er ekki öll sagan sögð.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að fjárfesting í leikskólum skilar sér margfalt til samfélagsins. Til dæmis hefur Norræna ráðherranefndin bent á að fjárfesting í leikskólum sé fjárfesting í framtíðinni, þar sem hún stuðlar að betri menntun, minni félagslegum vandamálum og aukinni framleiðni til lengri tíma.

Menntaðir leikskólakennarar gegna lykilhlutverki í þroska og námi ungra barna. Þeir hafa sérþekkingu á málnotkun, eðlilegu þroskaferli barna og kennsluaðferðum sem styðja við nám þeirra og félagslega færni. Með djúpan skilning á þroska barna geta leikskólakennarar veitt hverju barni einstaklingsmiðaða leiðsögn og stuðning, sem skapar öruggt og nærandi umhverfi þar sem börn geta dafnað.

Ef leikskólastarfsfólk væri allt ófaglært myndi það hafa alvarleg áhrif á gæði leikskólastarfsins. Skortur á faglegri þekkingu gæti leitt til þess að börn fengju ekki viðeigandi stuðning í málþroska, félagsfærni og námi, sem gæti haft langtímaáhrif á skólagöngu þeirra og líðan. Þar að auki myndi starfsmannavelta líklega aukast, þar sem ófaglært starfsfólk hefur oft minni tryggð við starfsgreinina og upplifir meiri áskoranir í starfi. Óstöðugt starfsumhverfi getur haft neikvæð áhrif á börn, sem þurfa trausta umgjörð og samfellda umönnun til að þroskast á heilbrigðan hátt. Að fjárfesta í menntuðum leikskólakennurum er því grundvallaratriði fyrir framtíð barnanna og gæði leikskólastarfs.

Það er þó mikilvægt að þessi umræða misskiljist ekki og túlkist sem menntahroki eða það að gera lítið úr leiðbeinendum og öðru starfsfólki leikskóla. Leikskólar byggja á samstarfi allra sem þar starfa, og hvert hlutverk er mikilvægt. Leiðbeinendur eru ómissandi hluti af leikskólastarfinu, en menntaðir leikskólakennarar gegna lykilhlutverki í faglegri stefnumótun og þróun leikskólastarfsins. Markmiðið er ekki að útiloka ófaglært starfsfólk, heldur að tryggja að börnin fái bestu mögulegu menntun og umönnun í bland við fjölbreyttan og öflugan mannauð. Að fjárfesta í menntuðum leikskólakennurum er því grundvallaratriði fyrir framtíð barnanna og gæði leikskólastarfs.

Leikskólakennarar eru fjárfesting í framtíðinni – ekki kostnaðarliður.




Skoðun

Sjá meira


×