Björn Ingi rekur fjölmiðilinn Viljann og heldur úti hlaðvarpinu Grjótkastinu. Hann segir í samtali við RÚV að hann ætli að halda áfram með hlaðvarpið.
Sigmundur Davíð hefur hingað til verið með tvo aðstoðarmenn, Hannes Karlsson og Unu Maríu Óskarsdóttur. Ekki liggur fyrir hvort annað þeirra er að hætta. Á vef Alþingis kemur fram að aðrir starfsmenn þingflokks Miðflokksins eru þau Fjóla Hrund Björnsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Laufey Rún Ketilsdóttir.
Björn Ingi starfaði sem blaðamaður til ársins 2002 þegar hann varð skrifstofustjóri Framsóknarflokksins. Árið 2003 varð hann svo aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra sem síðar var forsætisráðherra frá 2004 til 2006. Hann var varaþingmaður kjörtímabilið 2003 til 2007. Björn Ingi sat sem borgarfulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn 2006 til 2008 en fór svo aftur að starfa í fjölmiðlum.