Upp­gjörið: Kefla­vík - Álfta­nes 87-89 | Lang­þráður sigur Álft­nesinga

Andri Már Eggertsson skrifar
Álftanes - Keflavík 8 liða úrslit Subway deild karla 2024
Álftanes - Keflavík 8 liða úrslit Subway deild karla 2024 VÍSIR/VILHELM

Álftanes vann tveggja stiga útisigur gegn Keflavík 87-89. Gestirnir höfðu ekki unnið leik síðan 14. nóvember á síðasta ári svo sigurinn var ansi kærkominn. 

Leikurinn fór gríðarlega vel af stað og bæði lið voru í stuði í fyrsta leikhluta. Það var ekki að sjá að Álftanes væri kaldasta lið deildarinnar þar sem liðið hafði tapað fjórum leikjum í röð.

Liðin skiptust á körfum og hvorugu liðinu tókst að búa sér til forskot með því að tengja saman nokkrar körfur í röð. Eftir því sem leið á fyrsta leikhluta fór að halla undan fæti og Keflavík gerði aðeins tvö stig síðustu þrjár mínúturnar en gestirnir nýttu sér það ekki og staðan var 23-22 eftir fyrsta fjórðung.

Annar leikhluti var stál í stál líkt og sá fyrsti. Það var mikil barátta í fyrri hálfleik og bæði lið gerðu sín mistök. Keflavík var með níu tapaða bolta sem var þremur boltum meira en Álftanes. Staðan í hálfleik var 43-43.

Í seinni hálfleik var aðeins eitt lið sem kom út úr búningsklefanum til að spila körfubolta og það var Álftanes. Það gekk allt upp hjá gestunum sem gerðu sautján stig í röð. Heimamenn gerðu mikið af klaufalegum mistökum og hringurinn virtist vera lokaður.

Um leið og Keflvíkingar sáu boltann ofan í einu sinni fór að ganga betur. Gestirnir voru tíu stigum yfir 63-73 þegar haldið var í síðasta fjórðung.

Síðasta mínútan í fjórða leikhluta var æsispennandi. Í stöðunni 81-89 setti Remu Emil Raitanen þrjú víti ofan í. Haukur Helgi Pálsson kastaði boltanum strax frá sér og Igor Maric setti niður þrist og munurinn aðeins tvö stig. Bæði lið misnotuðu sín tækifæri en Keflavík fékk síðustu sóknina þegar 1.6 sekúnda var eftir. Ty-Shon Alexander var allt of lengi með boltann í höndunum og náði ekki að sleppa boltanum áður en skotklukkan rann út.

Álftanes vann tveggja stiga sigur 87-89 og þetta var fyrsti sigur Álftnesinga síðan 14. nóvember á síðasta ári.

Atvik leiksins

Hvernig Álftanes byrjaði síðari hálfleik þar sem gestirnir gerðu sautján stig í röð gerði það að verkum að liðið vann. Eftir það voru Keflvíkingar alltaf að elta sem að lokum kom í bakið á þeim. 

Stjörnur og skúrkar

Haukur Helgi Pálsson, leikmaður Álftaness, átti stórleik og gerði 22 stig. Haukur kom með körfur á mikilvægum tíma í leiknum fyrir gestina og var einnig með 24 framlagspunkta.

David Okeke var einnig öflugur í liði gestanna. Hann gerði 20 stig og tók 9 fráköst þar af 4 sóknarfráköst.

Ty-Shon Alexander var skúrkur kvöldsins. Hann tók sjö skot úr opnum leik og hitti aðeins úr einu. Ty-Shon fékk boltann í síðustu sókn leiksins en var allt of lengi með hann í höndunum og náði ekki að koma skoti áður en leiktíminn rann út.

Dómararnir [5]

Dómarar kvöldsins voru Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson og Birgir Örn Hjörvarsson.

Það var erfitt að lesa línuna sem dómararnir voru með í leiknum og maður fann það að þjálfarar beggja liða pirruðu sig á því. Dómararnir þurftu þó ekki að taka neinar stórar ákvarðanir og úrslit leiksins réðust ekki á dómgæslunni. 

Stemning og umgjörð

Eins og alltaf var umgjörðin til fyrirmyndar í Keflavík og það var verið að grilla hamborgara. Álftnesingar fá líka gott hrós fyrir að fjölmenna alltaf á útileiki og létu vel í sér heyra.

„Sigur er sigur og við tökum þessu fagnandi“

Kjartan Atli Kjartansson var ánægður með sigur kvöldsins Vísir/Anton Brink

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, var afar ánægður eftir sigur gegn Keflavík 87-89 í spennandi leik.

„Við gerðum þetta tæpt en sigur er sigur og við tökum þessu fagnandi,“ sagði Kjartan Atli og hélt áfram.

„Við vildum stýra hraðanum og mér fannst það ganga vel. Við komum inn í þriðja leikhluta og héldum áfram að ýta á þá og vorum að spila vegg og veltu úr mismunandi vínklum og við náðum að byggja upp forystu. Við fórum langt með það en Keflavík er lið áhlaupa og við vissum það fyrir leik.“

Þrátt fyrir að það hafi ekkert bent til þess kom Keflavík til baka þegar innan við mínúta var eftir sem gerði leikinn æsispennandi.

„Það komu fjögur stig á einhverjum fjórum sekúndum og Justin James fékk sína fimmtu villu. Það var stórt högg þarna sem við stóðum af okkur þrátt fyrir tvo tapaða bolta.“

„Við erum búnir að vera í mörgum jöfnum leikjum sem hafa farið hingað og þangað. Við höfum unnið einhverja og tapað einhverjum. Það er í mannlegu eðli þegar spennan eykst og einbeitingarstigið hjá andstæðingnum hækkar og vörnin hjá þeim var góð undir lokin en það var sterkt að klára þetta.“

Aðspurður út í hvort Kjartan hafi verið stressaður undir lokin sagðist hann hafa haft góða tilfinningu.

„Tilfinningin var góð í gegnum leikinn. Við vorum meðvitaðir um stöðuna, allir voru á staðnum og allir voru einbeittir og við lokuðum þessu,“ sagði Kjartan Atli að lokum og bætti við að árið byrji vel. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira