Skoðun

Raf­orku­notkun gagna­vera minnkað mikið

Tinna Traustadóttir skrifar

Landsvirkjun hefur dregið verulega úr sölu til gagnavera vegna þröngrar stöðu í raforkukerfinu en sala fyrirtækisins til gagnavera nemur nú aðeins þriðjungi af því sem hún var árið 2022.

Gagnaverin hafa umbreytt starfsemi sinni undanfarið. Rafmyntir eru á hraðri útleið á meðan áherslan er nú á gervigreind og þjónustu við viðskiptavini sem þurfa gagnageymslu og mikla reiknigetu. Þessi umbreyting gagnaveranna er í takt við stefnu Landsvirkjunar um að styðja við stafræna vegferð samfélagsins.

Gagnaversbyggingar með hátæknistarfsemi nota almennt um helmingi minni orku en rafmyntavinnsla og m.a. þess vegna felur þessi umbreyting í sér minni raforkunotkun. Þar að auki dregst raforkunotkun saman einfaldlega vegna umbreytinganna sjálfra en það tekur tíma fyrir gagnaverin að afla nýrra viðskiptavina og uppfæra aðstöðuna að ríkum kröfum þeirra.

Opinberar tölur Orkustofnunar sýna þessa þróun svart á hvítu en raforkunotkun gagnavera á Íslandi hefur dregist saman um 60% á rúmu ári. Sala Landsvirkjunar til gagnavera hefur dregist ennþá meira saman.

Tækniframfarir og vaxandi þörf fyrir stafræna innviði gera það að verkum að gagnaversstarfsemi er spennandi atvinnugrein sem væntingar standa til að muni vaxa margfalt samanborið við aðra geira á næstu árum. Gagnaver nota nú þegar um 1,5% af raforku í heiminum.

Landsvirkjun er með skýra forgangsröðun í raforkusölu. Í forgangi er að anna eftirspurn eftir raforku til aukinnar almennrar notkunar og styðja við orkuskipti, Þá ætlar Landsvirkjun að styðja við aukna stafræna vegferð samfélagsins, m.a. í gagnaverum með hátæknistarfsemi. Loks verður svo lögð áhersla á að styðja við framþróun núverandi stórnotenda, en dæmi um slík verkefni er steypuskáli Norðuráls á Grundartanga

Höfundur er framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun.




Skoðun

Sjá meira


×