Fótbolti

Arnar ekki heyrt frá KSÍ: „Ekki flókið í mínum huga“

Aron Guðmundsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur hefur verið orðaður við landsliðsþjálfarastöðuna hjá íslenska karlalandsliðinu.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur hefur verið orðaður við landsliðsþjálfarastöðuna hjá íslenska karlalandsliðinu. Vísir/Anton Brink

Arnar Gunn­laugs­son, þjálfari Víkings Reykja­víkur, hefur ekkert heyrt frá KSÍ varðandi stöðu þjálfara karla­lands­liðs Ís­lands í fót­bolta. Sam­bandið þar af leiðandi ekki beðið Víkinga um leyfi að ræða við Arnar sem reiknar með því, eins og staðan er í dag, að stýra Víkingum í Sam­bands­deild Evrópu í febrúar. Hlutirnir geti hins vegar breyst fljótt í fót­bolta.

Víkingar tryggðu sér í gær sæti í umspili fyrir sextán liða úrslit Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta með jafntefli á útivelli gegn LASK Linz í Austurríki. Eftir sex umferða deildarkeppni enduðu Víkingar í nítjánda sæti deildarkeppninnar með átta stig og varð það ljóst í hádeginu að liðið mun mæta Panathinaikos í umspili fyrir sextán liða úrslit deildarinnar í tveggja leikja einvígi í febrúar. 

Arnar er einn tveggja þjálfara sem hefur helst verið orðaður við stöðu lands­liðsþjálfara ís­lenska karla­lands­liðsins í fót­bolta. Hinn er Freyr Alexanders­son sem ný­lega var rekinn úr stöðu þjálfara belgíska úr­vals­deildar­félagsins KV Kortrijk.

Hafandi þessa stöðu í huga býst Arnar við því að stýra Víkingum í um­spilinu í febrúar?

„Staðan er alla­vegana þannig núna en hlutirnir geta breyst fljótt í fót­bolta,“ segir Arnar í sam­tali við Vísi í morgun. „Ég hef ekki heyrt nokkurn skapaðan hlut en les alveg blöðin. Mér finnst KSÍ hafa svarað þessu ágæt­lega til þessa. Menn þar eru ábyggi­lega bara að fara yfir ein­hverjar um­sóknir og þess háttar. Ef þeir vilja tala við mig þá þurfa þeir að tala fyrst við Víkingana og fá leyfi til þess. Þetta er ekki flókið í mínum huga.“

Þannig ef að leyfið kæmi frá Víkingunum þá myndirðu setjast niður með þeim?

„Það er nú erfitt að segja til um það núna en ef að Víkingur gefur leyfið þá er voða­lega erfitt að neita því. Þá hefur maður náttúru­lega áhuga á því að tala við KSÍ.“

Búist má við því að aukinn þungi fari að færast í ráðningar­ferli KSÍ en fyrsta verkefni nýs landsliðsþjálfara verður tveggja leikja einvígi við Kósovó í mars í umspili Þjóðadeildarinnar. 

Freyr Alexanders­son er í sömu stöðu og Arnar hvað það varðar að hafa ekki heyrt frá KSÍ frá því að þjálfara­leit sam­bandsins fór af stað.

Í síðustu viku sagði Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ í samtali við Vísi að sambandið hafi ákveðið að gefa sér tíma í þjálfaraleitina en á sama tíma reyna vinna hana hratt og mögulegt er. Þorvaldur sagði fjölda umsókna hafa borist á borð KSÍ en gaf lítið uppi um nákvæman fjölda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×