Viðskipti innlent

Hefur styrkt KR um 300 milljónir

Jón Þór Stefánsson skrifar
048A0884
Vísir/Vilhelm

Róbert Wessman stofnandi og forstjóri lyfjafyrirtækisins Alvotech hefur á síðustu árum styrkt íþróttastarf KR í gegnum fyrirtæki sín um tæplega 300 milljónir króna. 

Róbert ræddi við Hjörvar Hafliðason í Dr. Football, einu vinsælasta hlaðvarpi landsins, á dögunum. Alvotech er aðalstyrktaraðili KR og Róbert segir félagið hafa lagt verulegar fjárhæðir í starf þess, bæði í knattspyrnustarf og körfuboltastarf. DV fjallaði fyrst um málið.

„Mér finnst skipta máli í íþróttum, þegar þú ert að styðja við íþróttir, að það sé unnið vel í barnastarfinu. Og það séu bæði stelpur og strákar. Því við vitum að það er bara eitt prósent sem endar í meistaraflokki,“ segir hann í viðtalinu.

Í þættinum lýsir Róbert æfingaaðstöðu félagsins sem lélegri. „Völlurinn er ekki klár. Það er flott að vera með grasvöll en hann er bara ekki klár.“ Hann segir uppbyggingu nýrrar aðstöðu hafa tekið of langan tíma. 

„Ég studdi KR með Alvogen líka, og kannski hefur Alvogen sett meira í þetta en Alvotech, en ég held þetta sé að nálgast 300 milljónir.“

Þáttinn má nálgast í heild sinni í spilaranum ofar í fréttinni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×