Körfubolti

Fóru um Ís­land, hoppuðu yfir bíla og aug­lýstu pítsur

Sindri Sverrisson skrifar
Bandarískir körfuboltamenn urðu að stjörnum hér á landi og léku til að mynda í pizza-auglýsingum.
Bandarískir körfuboltamenn urðu að stjörnum hér á landi og léku til að mynda í pizza-auglýsingum. Skjáskot/Kaninn

Bandarískir körfuboltamenn settu skemmtilegan svip á íslenska menningu undir lok síðustu aldar, þegar NBA-æðið var í hæstu hæðum, eins og rifjað er vandlega upp í þáttaröðinni Kaninn.

Þættirnir eru sýndir á Stöð 2 og Stöð 2 Sport, og má sjá brot úr þeim hér að neðan.

Á meðal þeirra litríku og skemmtilegu leikmanna sem koma fyrir í þáttunum, og urðu að stjörnum hér á landi, eru þeir Rondey Robinson, Frank Booker, John Rhodes og Terry Acox.

„Þeir bjuggu til lið, skírðu það Nike-liðið, og ákváðu að fara um landið. Þar spiluðu þeir leiki við heimaliðin á nokkrum stöðum, og voru svo með uppákomur í hálfleik. Troðslukeppnir- og sýningar, og þriggja stiga skotkeppnir,“ rifjar Friðrik Ingi Rúnarsson upp í þáttunum.

„Á þessum tíma voru þeir líka að leika í pizza-auglýsingum eins og fyrir Pizza 67,“ eins og sjá má í klippunni hér að neðan.

Klippa: Kaninn - Héldu sýningar um allt land

Mergjuð tilþrif og magnaðir hæfileikar þessara leikmanna vöktu skiljanlega víða athygli.

„Terry Acox kom með okkur eitt sinn í Versló og við rúlluðum þangað inn bíl sem hann hoppaði yfir. Þetta eru áhrifin frá þessum Könum. Þeir komu með eitthvað sem við vissum ekki að væri hægt að gera. Það gera þeir og sýna okkur sinn styrk með því,“ segir Svali Björgvinsson.

Kaninn er á dagskrá Stöð 2 og Stöð 2 Sport á sunnudagskvöldum. Þættirnir eru einnig aðgengilegir á efnisveitunni Stöð 2+.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×