Innlent

Svif­ryksmengun í borginni í dag og næstu daga

Kjartan Kjartansson skrifar
Svifryk er að stórum hluta malbiksagnir. Myndin er úr safni.
Svifryk er að stórum hluta malbiksagnir. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Styrkur svifryks sem kemur frá bílaumferð hefur mælst hár á nokkrum stöðum í Reykjavík í dag. Búast má við áframhaldandi loftmengun næstu daga vegna umferðar, kulda og þurrks og eru borgarbúar hvattir til að draga úr notkun einkabíla.

Kalt og þurrt er nú í höfuðborginni en við þær aðstæður safnast svifryk frá umferð upp í stað þess að dreifast. Vindhraði var aðeins um tveir metrar á sekúndu í hádeginu og spáð er hægum vindi í allan dag. Því er varað við því að styrkur svifryks fari aftur hækkandi þegar síðdegisumferðin fer af stað í dag.

Svipuðu veðri er spáð næstu daga og því má reikna með áframhaldandi svifryksmengun samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Helstu stofngötu og þjóðvegir í þéttbýli verða rykbundnir í nótt til að draga úr uppþyrlun ryks. Engu að síður er fólk hvatt til að geyma bílferðir sem eru ekki aðkallandi, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra samgöngumáta til þess að draga úr menguninni.

Þá skorar borgin á fyrirtæki til þess að hvetja starfsfólk sitt til þess að vinna fjarvinnu ef það hefur kost á og draga þannig úr akstri.

Svifryk er skaðlegt heilsu fólks, sérstaklega þess sem hefur undirliggjandi lungna- eða hjartasjúkdóma. Varað er við áreynslu í nágrenni stórra umferðargatna þegar svifryksmengun er mikil og öldruðum og börnum er ráðlagt að forðast útiveru vegna hennar.

Aðaluppspretta þeirra svifryksmengunar sem nú mælist í borginni, þar sem agnir eru um tíu míkrógrömm að stærð, er uppspænt malbik, sót sem kemur aðallega frá bruna dísilolíu, jarðvegsagnir, salt og aska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×