Innlent

Trump sér­stak­lega á­huga­samur um ís­lenska menningu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Bjarni ræddi við verðandi Bandaríkjaforseta yfir síma í gær.
Bjarni ræddi við verðandi Bandaríkjaforseta yfir síma í gær. Bjarni Benediktsson

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra átti símafund með Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, í gær. Hann segist Trump hafa verið sérstaklega áhugasaman um íslenska menningu og sögu og bað fyrir góðum kveðjum til þjóðarinnar.

Bjarni segist hafa átt gott spjall við forsetann verðandi þar sem hann lagði áherslu á vináttu ríkjanna og viðskipti. Bandaríkin séu stærsta einstaka viðskiptaland fyrir íslenskar útflutningsvörur.

„Ég nefndi sérstaklega mikilvægi þess að halda í þetta góða samband og dýpka viðskipti okkar enn frekar. Ræddum einnig Atlantshafsbandalagið, mikilvægi þess fyrir öryggi og varnir á Norður-Atlantshafi og loftrýmisgæsluna. Sömuleiðis mikilvægi áframhaldandi öflugs stuðnings við varnir Úkraínu og leiðina til langvarandi friðar,“ segir Bjarni í færslu um símtalið sem hann birti á síðu sinni á Facebook.

Þar segist hann einnig hafa nefnt velheppnaða alþjóðlega fundi hér á landi. Þar hafi hann sérstaklega tekið fram leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn var hér á landi á síðasta ári en sömuleiðis viðburði á borð við fundinn í Höfða árið 1986.

„Trump var sérstaklega áhugasamur um Ísland, bæði sem ferðamannastað og um sögu og menningu okkar. Hann bað fyrir góðum kveðjum til íslensku þjóðarinnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×