Erlent

Netanja­hú sendir flug­vélar til að sækja Ís­raela í Amsterdam

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla hafði þegar handtekið nokkurn fjölda á Dam-torgi í aðdraganda leiksins.
Lögregla hafði þegar handtekið nokkurn fjölda á Dam-torgi í aðdraganda leiksins. EPA

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur ákveðið að senda tvær flugvélar til Amsterdam í Hollandi til að koma hóp Ísraela á brott eftir að til harðra átaka kom eftir fótboltaleik Ajax og Maccabi Tel Avív í gærkvöldi.

Lögregla í Hollandi handtók 57 manns eftir átökin sem brutust út á milli ungra heimamanna og ísraelskra stuðningsmanna Maccabi Tel Avív á Dam-torgi í miðborg Amsterdam.

Dick Schoof, forsætisráðherra Hollands, hefur fordæmt „árásir sem stjórnist af gyðingahatri“ og þá hefur Ísraelsher lýst atvikunum sem „alvarlegum og ofbeldisfullum“ árásum sem hafi beinst gegn Ísraelum.

Í frétt BBC segir að Schoof hafi með hryllingi fylgst með málinu og að hann hafi rætt við Netanjahú og sagt að árásarmennirnir myndu finnast og þeir verða ákærðir.

Lögregla hafði þegar handtekið nokkurn fjölda á Dam-torgi í aðdraganda leiksins, þar sem til átaka hafði komið milli stuðningsmanna Maccabi og palestínskra mótmælenda. Þá hafi borist fréttir af því að kveikt hafi verið í flugeldum og palestínskir fánar verið rifnir niður.

Isaac Herzog Ísraelsforseti lýsti árásunum sem „pogrom“ gegn stuðningsmönnum og Ísraelum, hugtak sem notað er undir skipulagða hatursglæpi gegn gyðingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×