Eins og fram kom í síðustu viku var niðurstaða rannsóknar starfshóps á uppruna smitsins að um hefði verið að ræða sýkt hakk frá Kjarnafæði sem hefði ekki verið meðhöndlað með réttum hætti í eldhúsi Mánagarðs.
Allt að 45 börn veiktust á leikskólanum. Enn er einhver fjöldi inniliggjandi á Barnaspítalanum. Fyrr í vikunni var eitt barn á gjörgæslu í öndunarvél. Leikskólinn opnaði aftur á þriðjudag. Börnin fá nú mat frá Skólamat en áður var hann undirbúinn á staðnum.
„FS harmar þau mistök og vill enn og aftur ítreka að hugur FS er hjá þeim börnum sem veiktust, foreldrum og öllum aðstandendum þeirra. Það er einlæg ósk okkar að þau börn sem eru enn að berjast við sýkinguna hressist sem fyrst og nái fullum bata,“ segir í póstinum sem sendur var á foreldra.
Bent á að tilkynna til Sjóvá
Þar kemur einnig fram að öll börn á leikskólum FS séu tryggð hjá Sjóvá auk þess sem FS sé með ábyrgðartryggingu hjá þeim, og að bótaskylda sé viðurkennd.
„Ykkur er vinsamlega bent á að tilkynna mál ykkar barna beint á vefsíðu Sjóvá, bæði til þess að tryggja bótarétt barnsins ef langvinnar afleiðingar verða af sýkingunni og til þess að sækja bætur vegna tekjutaps eða kostnaðar sem kann að hljótast af veikindunum,“ segir í tölvupóstinum og að búast megi við því að það muni taka tíma að vinna málin og safna gögnum.
Þá er foreldrum að endingu bent á að hafa samband við Sjóva og að FS geti aðstoðað ef þörf er á.