Skoðun

Er Kristó­fer tals­maður skyndi­legrar skatt­heimtu á ferða­þjónustu?

Ingvar Örn Ingvarsson skrifar

Í Morgunblaðinu í síðustu viku birti Kristófer Oliversson, formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu (FHG), svargrein við annarri grein undirritaðs sem Kristófer taldi ómálefnalega vegna aðdróttana um atvinnuróg annars vegar og hins vegar vegna staðhæfingar um að Kristófer ynni gegn hagsmunum ferðaþjónustunnar. Best er að hver dæmi fyrir sig hvað er málefnalegt og hvað ekki.

Alþjóðlegir skipafarþegar þangað sem ekki er flogið

Í viðtali við RÚV 9. október sagði Kristófer, „Fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu fagna því hins vegar að það sem þau kalla fljótandi hótel eigi frá áramótum að borga toll af matvörum og olíu sem þau kaupa hér á landi.“ Þetta er ekki málefnalegt að mínu mati. Öllum ætti að vera ljóst að skemmtiferðaskip eiga ekkert sameiginlegt með hótelum. Ferðamenn kaupa nánast aldrei ferðalag til þess eins að gista á hóteli. Það gerir fólk hins vegar með skemmtiferðaskipum enda er skipið andlag ferðarinnar og áfangastaðirnir margir. M.ö.o. myndi fólk velja aðra áfangastaði með skemmtiferðaskipi, fremur en að velja annan samgöngumáta til að komast á áfangastað sem ekki er hægt að komast á með skemmtiferðaskipi. Þá stunda skemmtiferðaskip alþjóðlega farþegaflutninga, líkt og flugfélög, og eru því eina leið flestra áfangastaða á landsbyggðinni til að fá erlenda farþega beint til sín. Vestamannaeyjar fá ekki alþjóðlegt farþegaflug, en eyjarnar fá alþjóðlegar skipasiglingar. Í þriðja lagi má segja að skemmtiferðaskipin stuðli að uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni þar sem ekki er fyrir mikil gistiaðstaða, það getur svo leitt til frekari uppbyggingar, til dæmis á hótelum.

Skemmtiferðaskip eru þrettándi mánuður hótelanna

Kristófer sagði við sama tækifæri, „...mikilvægt að afnema velgjörðir handa einstaka hópum ferðamanna á kostnað samfélagsins.“ Þetta er augljóslega rangt. Til umfjöllunar var tollfrelsi skemmtiferðaskipa á hringsiglingum um Ísland. Þar sitja farþegaflutningar með skipum almennt við sama borð og farþegaflutningar með flugi. Á meðan fólk getur haft skoðun á því að virðisauka- og tollakerfi sé einfaldað er einnig um pólitíska stefnumótun að ræða í atvinnumálum á landsbyggðinni enda fer afnám tollfrelsis ekki saman við atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, þvert á móti. Samtals eru beinar tekjur af hafnargjöldum, áætlaðri eyðslu ferðamanna, opinberum gjöldum, olíusölu, flugfargjöldum og þjónustu vegna hringsiglinga eingöngu (sem njóta tollfrelsis) á Íslandi á þessu ári: Kr. 10.785.174.406. Afnám tollfrelsisins mun ekki skila neinum nettó tekjum til ríkisins né samfélagsins enda munu þau skemmtiferðaskip sem telja skrifræðið fyrirhafnarinnar virði geta innskattað á móti eða náð tollfrelsi með einu stoppi í Færeyjum. Sum skipafélög munu fella niður allar ferðir til Íslands á næsta ári eins og þegar má sjá dæmi um í samráðsgátt stjórnvalda vegna þessa máls. Stór hluti þessara tekna fellur til á stöðum sem njóta ekki almenns ferðamannastraums, eins og Djúpavogi, Bolungarvík, Ísafirði, Húsavík, Borgarfirði Eystri, Vestmannaeyjum. Ef Kristófer heyrir í þeim sem reka söfn, veitingastaði, hvalaskoðun, rútufyrirtæki, þeim sjö landeigendum þar sem landtökur eru auk fjölda annarra vaxandi fyrirtækja í þjónustu við skipin er ég viss um að þau kunna honum litlar þakkir. Aðgerðin er á kostnað þessara fyrirtækja og fólksins sem lifir af þeim á landsbyggðinni. Þau eru samfélagið. Þá er auðvitað rangt að hótel séu ekki á einhvern hátt til á kostnað samfélagsins. Sama dag og RÚV ræddi við Kristófer birtist frétt í einum stærsta fjölmiðli Bretlands, The Guardian, um hvernig tónleikastaðir í Reykjavík hafa vikið fyrir hótelherbergjum. Samfélagið færir því einhverjar fórnir þar í þágu annarra viðskipta og atvinnusköpunar. Vonandi getur tónlistarfólk nýtt nýja samgöngumiðstöð Faxaflóahafna sem byggð er til að þjónusta skemmtiferðaskipin fyrst tónleikastöðum er lokað fyrir hótelbyggingar, það verður öllum til góða, líka hótelunum. Augljóslega var þetta ekki málefnalegt innlegg hjá Kristófer. Öll atvinnustarfsemi þarf að leitast við að starfa í sátt við aðra hagaðila. Við reynum það hjá Cruise Iceland, m.a. með Kristófer og FHG, hann mætir á þá viðburði sem við bjóðum honum til, um borð í skip t.d. og á opna fundi. Þrátt fyrir það afneitar hann staðreyndum á borð við þær að skip, bara í hringsiglingum, kaupa gistingu af hótelum á höfuðborgarsvæðinu fyrir á annan milljarð á hverju ári. Það er alveg sama hvernig horft er á málið, skemmtiferðaskip eru ekki í samkeppni við hótelin. Þvert á móti eru þau þrettándi mánuðurinn í rekstri hótelanna – tölurnar sýna það.

Nánast frítt að greiða 1.415 milljónir í hafnargjöld í Reykjavík?

Þá sagði Kristófer líka í viðtalinu við RÚV að skipin væru, „...fljótandi hótel sem eru nánast frítt við höfnina og borga um það bil 10-15% af þeim sköttum sem við greiðum.“ Nánast frítt? Höfnin sem skipin leggja að er ef til vill Reykjavíkurhöfn, en skemmtiferðaskipin greiddu árið 2023 1.415 milljónir í hafnargjöld þar. Árið 2022 voru tekjur Faxaflóahafna af skemmtiferðaskipum 25,4% af heildar tekjum Faxaflóahafna. Ríkissjóður ber straum af rekstri hafna sem ekki eru með sjálfbærann rekstur. Kristófer sjálfur borgar því, eins og landsmenn allir, ef hafnirnar bera sig ekki sjálfar. Kristófer hefur einnig sagt skattspor hótelherbergis vera tvær milljónir á ári. Ef við gefum okkur að það sé rétt þá er skattsporið tæpleg 5.500 krónur á sólahring miðað við rúmlega 12 þúsund hótelherbergi. Með fyrirhuguðu innviðagjaldi á skemmtiferðaskip, sem Kristófer hefur barist fyrir og skipafélögin einungis mótmælt stuttum fyrirvara á, mun eingöngu innviðgjaldið verða 5.000 krónur á sólarhring miðað við tvo farþega í káetu. M.ö.o. er skattspor skemmtiferðaskipanna með innviðagjaldinu einu saman næstum það sama og hótelanna þá sólarhringa sem þau eru hér við land og þá á eftir að bæta öllum öðrum gjöldum við. Augljóslega greiða hótelin gjaldið alla daga ársins en hafa þarf í huga að þau standa líka á lóðum og nýta innviði landsins alla daga ársins. Útgerðir skemmtiferðaskipa hafa ekki mótmælt því að af þeim séu tekin gjöld, einungis því að þau séu lögð á með nokkurra vikna fyrirvara, ár eftir ár. Nokkuð sem formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, Pétur Óskarsson, hefur nýlega tekið undir í aðsendri grein á visir.is.

Margur heldur mig sig

Og að lokum sagði Kristófer, „Starfsfólk í þessum skipum er utan við alla skatta og skyldur hérna heima og ég undrast stundum að verkalýðshreyfingin líti ekki um borð í þessi skip og velti fyrir sér hvað sé hægt að gera.“ Sjá ekki allir að hér er um aðdróttun að ræða? Skemmtiferðaskip eru, eins og flugfélög, með alþjóðlegar áhafnir og lúta regluverki International Maritime Organisation og International Labour Organisation, eins og kom fram í þeirri aðsendu grein sem Kristófer segir ómálefnalega þann 21. október á visir.is. Eftirliti með aðbúnaði og kjörum áhafna skipa sinna Hafnarríkiseftirlit Samgöngustofu og International Transport Workers' Federation ITF . Auðvitað veit Kristófer, sem þekkir heimsóknir verkalýðsfélaga, að þau hafa ekkert með skemmtiferðaskipin að gera.

Af ofangreindu sögðu má vera ljóst að ekki var um neinar aðdróttanir að ræða hjá mér. Ég staðhæfi einfaldlega að haldi menn ítrekað rangfærslum á lofti um tiltekna atvinnugrein sé það atvinnurógur. Dæmi hver fyrir sig.

Starfsstjórn bráðra skattahækkana

Kristófer sagði einnig ómálefnalegt að halda því fram að hann ynni gegn hagsmunum ferðaþjónustunnar. Það voru ekki mín orð heldur vitnaði ég til orða sem látin voru falla á landsbyggðinni vegna baráttu Kristófers fyrir aukinni skattlagningu á einn geira ferðaþjónustunnar. Þau orð voru þessi: „Hann er að rústa heilli atvinnugrein.“ En hafið ekki mig, hagsmunagæslumanninn, fyrir því. Hlustið frekar á þau sem undrast að hóteleigandi á höfuðborgarsvæðinu komist upp með það að fá starfsstjórnina með sér í lið til að leggja landsbyggðarskatt á íslenska ferðaþjónustu – lesið fréttirnar á veffréttamiðlum landsbyggðarinnar og skoðið umsagnirnar sem eru komnar í samráðsgátt Alþingis og bókanir bæjarstjórna á landsbyggðinni. Þar má glöggt sjá að áhyggjurnar eru verulegar.

Þau hafa tjáð sig m.a. hér undanfarnar vikur um afnám tollfrelsisins sem eitt og sér var alvarlegt. En síðan þessar fréttir hér fyrir neðan voru sagðar hefur starfsstjórnin kynnt áðurnefndan innviðskatt á skemmtiferðaskipin í kaupbæti, sem einnig á að taka gildi innan nokkurra vikna.

Það kaldhæðnislegasta í öllu þessu „samtali“ við Kristófer og stjórnvöld er að skemmtiferðaskipin hafa tekið aukinni gjaldtöku, gistináttaskatti og nú síðast fyrirhuguðu innviðgjaldi. Þau hafa hins vegar harðlega mótmælt því að slíkar álögur, sem í tilfelli innviðagjaldsins jafnast hlutfallslega á við allt skattspor félaganna í FHG, séu lagðar á með nokkurra vikna fyrirvara – það er vegna þess ferðirnar eru seldar með meira en árs fyrirvara og því er um beinan kostnaðarauka fyrir skipafélögin að ræða. Afnámi tollfrelsis hefur hins vegar alfarið verið mótmælt enda hefur afnámið, og ekki síður svo hátt innviðagjald, áhrif á sveitarfélög landsins sem minna á skyldu ríkisins að framkvæma mat á áhrifum lagabreytinga á fjárhag sveitarfélaga sbr. 129. gr. sveitarstjórnarlaga. En auðvitað hefur það ekki verið gert heldur eins og var áskilið af efnahags- og viðskiptanefnd. Ráðuneytið heldur meira að segja fram í minnisblaði um málið að „enginn“ muni hætta að sigla til landsins. Það afsannaðist í gær þegar eitt skipafélag hætti við allar ferðir til Íslands á næsta ári.

Að lokum þá get ég tekið undir með fyrirsögn Kristófers, arðsemi vex með hóflegri notkun auðlinda. Þess vegna hafa hafnir landsins í samráði við skemmtiferðaskipin sett hámark á fjölda farþega hvern dag í hverri höfn. Þess vegna er gott að farþegar skemmtiferðaskipa dreifist um 31 höfn víðsvegar um landið, án þess að nota til þess hringveginn okkar, og þess vegna er gott að álagsstýringin á ferðamannastöðum sé allavega til staðar með þessi 12-14% ferðamanna sem koma til landsins með skemmtiferðaskipum.

Stóra spurningin er eftir sem áður sú, finnst Kristófer eðlilegt að há gjöld séu lögð á ferðaþjónustuna með nokkurra vikna fyrirvara, á ferðir sem hafa þegar verið seldar? Í umsögn FHG um innviðagjaldið virðist meira að segja Kristófer vera sammála því að vont sé fyrir ferðaþjónustuna að skattar séu lagðir á með svo stuttum fyrirvara, á ferðir sem þegar hafa verið seldar. Svör óskast frá Kristófer, á það ekki líka við um skemmtiferðaskipin?

Nokkur dæmi um áhyggjur af landsbyggðarskattinum:

https://www.bb.is/2024/10/skattlagning-laxeldis-frettin-sem-ekki-var-sogd/ ” Og nú þarf að setja sérstakan skatt, innviðagjald, á skemmtiferðaskip sem koma við á höfnum úti á landi af því það er svo ósanngjarnt gagnvart hóteleigendum á höfuðborgarsvæðinu. Til þess að fækka ferðamönnum á landsbyggðinni og fjölga þeim á höfuðborgarsvæðinu skal nú greitt innviðagjald á landsbyggðinni fyrir litla notkun innviða og sleppa því að rukka þá ferðamenn sem nota innviðina mikið akandi út frá hótelum í Reykjavík.”

https://www.vikubladid.is/is/frettir/akvordun-um-rafvaedingarhluta-torfunefsbryggju-frestad ” Hlutur Hafnasamlagsins í þessum framkvæmdum er áætlaður 545 mkr. Stjórn HN samþykkti framlagða tillögu, en frestaði þó endanlegri ákvörðun um rafvæðingarhluta Torfunefsbryggju. Ástæða þess er að mikil óvissa er varðandi komur minni skemmtiferðaskipa til landsins en eins og fram hefur komið eru uppi hugmyndir um aukna skattheimtu á hringsiglingar þeirra, nokkuð sem gæti tekið gildi um næstu áramót og ferðirnar við það lagst af.”

https://www.akureyri.net/is/moya/news/helmingur-farthega-i-hvalaskodun-folk-af-skemmtiferdaskipum „Ég myndi segja, án þess að hafa tölurnar hjá mér, að rúmlega helmingur viðskiptavina okkar í sumar komi af skemmtiferðarskipunum.“

https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir/baejarrad/12434 ”Það er óásættanlegt að afnema tollfrelsi skemmtiferðaskipa í hringsiglingum án þess að mat sé lagt á efnahagsleg áhrif aðgerðarinnar, eða að ákvörðunin byggi á langtíma stefnumótun um mótttöku skemmtiferðaskipa. Bæjarráð leggur þunga áherslu á að gildistökunni verði frestað um tvö ár á meðan sú vinna fer fram, enda gæti verið um að ræða verulega vanhugsaðan landsbyggðarskatt sem muni hafa mikil áhrif á mótttöku skemmtiferðaskipa m.a. á Akureyri, Hrísey og Grímsey.”

https://eyjafrettir.is/komum-gaeti-faekkad-um-um-40/ ” Samkvæmt upplýsingum Dóru Bjarkar er töluverður hluti skemmtiferðaskipa sem hingað kemur á hringferð um landið. Er niðurfellingin þegar farin að hafa áhrif og bókanir færri fyrir sumarið 2025 en 2024 og 2023. „Það er því ljóst að afnám tollfrelsis hefur þegar áhrif á ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum sem hefur tekið vel við sér í ár og er að þjónusta farþega vel. Þetta á að taka gildi um áramótin en ennþá liggja engar upplýsingar fyrir um hvernig á að vinna þetta,“ segir Dóra Björk.”

https://www.austurfrett.is/umraedan/mulathing-i-stoedhugum-vexti-vegna-skemmtiferdhaskipa-en-blikur-a-lofti-vegna-tollfrelsis ” Um 200 komur skemmtiferðaskipa og 40 komur Norrænu eru bókaðar á höfnum Múlaþings samanlagt árið 2025, svo að vel þarf að halda á spilunum við undirbúning næstu ára. Með afnámi tollfrelsis sem taka á gildi 1. janúar næstkomandi verður 60%, af nú þegar bókuðum komum til hafna Múlaþings, stefnt í hættu. Útgerðir minni skipanna eru nú þegar farnar að leita á önnur mið vegna þessa ef marka má samtöl við útgerðirnar nýlega. Einhver hafa nú þegar afbókað komu sína á næsta ári. Eitt alvarlegasta dæmið um hvernig bókanir eru í hættu er Celebrity Cruises árin 2026 - 2028, en þau hafa bókað um 80 komur til Seyðisfjarðar og Djúpavogs, þar yrði tekjutapið um 320 milljónir eða rúmar 100 milljónir á ári frá þessu eina skipafélagi sem ætlar að gera út hringsiglingar þessi ár. Hver koma skilar 4 milljónum í hafnarkassann samkvæmt verðskrá ársins í ár.”

https://www.isafjordur.is/is/stjornsysla/stjornsyslan/fundargerdir/baejarrad/1935

“Bæjarráð leggur áherslu á að móttaka skemmtiferðaskipa er hlutfallslega mjög mikilvæg fyrir Vestfirði. Bæjarráð tekur undir áhyggjur Cruise Iceland og leggur til við Alþingi að hafa til hliðsjónar þær tillögur sem Cruise Iceland leggur til í lok umsagnar þeirra”.

Höfundur er talsmaður Cruise Iceland.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×