Erlent

Ísrael gerir loft­á­rás á Íran

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AP/Hassan Ammar

Ísraelski herinn hefur hafið loftárásir á Íran. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ísraelsher en þeir segjast nú framkvæma hnitmiðaðar árásir á hernaðarleg skotmörk í Íran.

Fréttastofa BBC greinir frá. Daniel Hagari, talsmaður Ísraelsher segir árásina vera svar við „mörgum mánuðum af árásum frá Íran gegn Ísrael“. Hagari bætir við að ríki Ísraels eigi fullan rétt á því að verja sig gegn linnulausum árásum Íran. „Við munum gera allt sem við þurfum til að verja Ísrael og fólkið í ríkinu.“

Umfang árásar Ísraels er óljóst að svo stöddu en samkvæmt írönskum miðlum er enn eðlileg starfsemi á báðum flugvöllum við höfuðborg landsins. Íranska fréttastofan Fars greinir frá því að herstöðvar sunnan og vestan við höfuðborgina hafi orðið fyrir skotflaugum.

Sýrlenskir miðlar herma að loftvarnir Sýrlands hafi skotið niður nokkrar skotflaugar frá Ísrael. Jafnframt kemur fram að þó nokkrar skotflaugar Ísrael hafi lent í suðurhluta Sýrlands. 

Í írönskum miðlum er tekið fram að sprengingar hafi heyrst fyrir utan Teheran, höfuðborg Íran. Leyniþjónusta Íran sagði í samtali við ríkissjónvarpið þar í landi að sprengingarnar gæti verið hávaði frá loftvörnum Íran. 

 Í tilkynningu frá stjórnvöldum í Bandaríkjunum kemur fram að árásin sé svar Ísraels við loftárás Íran sem var þann fyrsta október þegar Íran skaut tvö hundruð skotflaugum að Ísrael. Ísrael hefur að svo stöddu ekki gefið neinar leiðbeiningar til íbúa þess efnis að leita sér skjóls en Ísraelsher segist vera öllu viðbúinn. Herinn fylgist grannt með öllum hreyfingum Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×