Innlent

Tíu börn með ein­kenni E.Coli-sýkingar

Atli Ísleifsson skrifar
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir að E.Coli-smit sé staðfest hjá tveimur barnanna og í tilfellum annarra sé málið í vinnslu.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir að E.Coli-smit sé staðfest hjá tveimur barnanna og í tilfellum annarra sé málið í vinnslu. Vísir/Arnar

Tíu börn á leikskólanum Mánagarði höfðu í gærkvöldi leitað á sjúkrahús með einkenni E.Coli-sýkingar. Fjögur eru nú inniliggjandi til eftirlits og fjögur til viðbótar höfðu leitað á bráðamóttöku Landspítalans.

Þetta staðfestir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir í samtali við fréttastofu. Hún segir að sérstakur stýrihópur muni koma saman í dag til að kanna málið og taka ákvarðanir í framhaldinu.

„Þetta getur verið alvarleg sýking og við vitum um þónokkur börn sem eru með einkenni. Það er því verið að fylgjast vel með þessu og kafa dýpra í málið.“

Mánagarður er leikskóli rekinn af Félagsstofnun stúdenta við Eggertsgötu í Vesturbæ Reykjavíkur.

Mikilvægt að fylgjast með

Guðrún segir að E.Coli-smit sé staðfest hjá tveimur barnanna og í tilfellum annarra sé málið í vinnslu.

„Það sem þarf að hafa í huga, þeir sem hafa verið í kringum þetta, það er að fylgjast vel með börnunum sínum. Ef þau hafa einhver einkenni, sérstaklega uppköst, niðurgang sem er algengast, kviðverkir, hiti, þá þarf að leita til heilbrigðisþjónstunnar. Ef það eru klár einkenni, þá á að fara á Barnaspítalann. Það er líka hægt að hringja í heilsugæsluna þar sem hægt er að fá ráðgjöf.“

Yfirlett matartengt

Guðrún segir að um sé að ræða bakteríu sem geti valdið alvarlegri meltingarsýkingu. „Oft gengur þetta yfir að sjálfu sér. Það á ekki að nota nein sýklalyf gegn þessu. Þetta er matartengd sýking yfirleitt. Þetta er svokölluð súna, þannig að þessi baktería kemur upprunalega frá dýrum. Getur komið beint frá dýrum en oftast er þetta matartengt. Þetta getur líka verið í vatni, en er helst í nautakjöti, salati. Þetta er því spurning um hreinlæti og meðhöndlun matar.“

Hægt er að lesa um E.Coli-bakteríu og meðhöndlun á vef embættis landlæknis og Matvælastofnunar.


Tengdar fréttir

Leikskóla lokað vegna E.coli sýkingar

Leikskólanum Mánagarði í Reykjavík hefur verið lokað samkvæmt tilmælum sóttvarnarlæknis vegna alvarlegrar E.coli sýkingar. Þetta herma heimildir fréttastofu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×