Innlent

Veitinga­hús mega vænta kæru eftir eftir­lits­ferðir lög­reglu

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn hnutu um ýmislegt sem þeir sáu á öldurhúsum borgarinnar við skipulagt eftirlit. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Lögreglumenn hnutu um ýmislegt sem þeir sáu á öldurhúsum borgarinnar við skipulagt eftirlit. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Vilhelm

Ýmislegt reyndist óbótavant þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnit skipulögðu eftirliti með veitingahúsum víða um borgina í nótt. Nokkur veitingahús eru sögð mega eiga von á kæru. Fjórir gistu fangageymslur lögreglunnar í nótt.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir gærkvöldið og nóttina.

Tilkynnt var um líkamsárás á veitingastað í póstnúmeri 108. Ekki eru frekari upplýsingar um árásina í dagbókinni aðrar en að hún sé í rannsókn. Þá var tilkynnt um yfirstaðið innbrot á veitingastað í sama hverfi en það er einnig í rannsókn.

Þá var tilkynnt um slys á veitingastað í miðborginni en það reyndist minniháttar.

Lögreglumenn handtóku farþega leigubíls sem hafði í hótunum við leigubílstjóra og neitaði að borga fyrir farið. Sá var handtekinn en látinn laus að loknum skýrslutökum.

Í póstnúmeri 113, sem nær yfir Grafarholt og Úlfarsárdal var tilkynnt um hópslagsmál. Þau reyndust minniháttar, að sögn lögreglu. Áflogaseggirnir héldu allir leiðar sinnar eftir að lögregluþjónar ræddu við þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×