Lífið

Hlaupa Bleiku slaufuna í sólar­hring

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Þátttakendur hafa skipt með sér tímum en einhver hleypur eða gengur Úlfarfellið á hverjum klukkutíma í nótt.
Þátttakendur hafa skipt með sér tímum en einhver hleypur eða gengur Úlfarfellið á hverjum klukkutíma í nótt. Aðsend

„Þetta verður í 24 tíma því að krabbameinið sefur aldrei, hvort sem það er nótt eða dagur. Það er fólk búið að skrá sig á alla tímanna í nótt. Þetta gengur frábærlega.“

Þetta segir Kjartan Long, einn skipuleggjanda Styrkleikanna sem fara nú fram á Úlfarsfelli. Styrkleikarnir eru haldnir í fyrsta sinn í ár en þeir ganga út á það að hátt í hundrað manns hafa skráð sig til leiks og skiptast á að ganga og hlaupa ákveðna leið um Úlfarsfell sem er í laginu eins og Bleika slaufan, í raun hefur leiðinni verið gefið nafnið Bleika slaufan. 

Leiðin sem hlaupið og gengið er um.aðsend

Kjartan segir verkefnið vera táknrænt fyrir það að það fæst engin hvíld frá krabbameini og ítrekar að fólk sem tekst á við krabbamein geri það allan sólarhringinn. Hlaupið er til að sýna stuðning og safna fé til rannsókna á Krabbameinum. Hlaupið hófst klukkan níu í morgun og mun ljúka í fyrramálið á sama tíma. 

Hægt er að heita á þáttakendur hér en einnig er hægt að heita á hópinn í gegnum Aur með númerinu 1235401900. 

„Þessi leið er alveg eins og Bleika slaufan. Þetta er samstarfsverkefni milli Krabbameinsfélagsins og verkefnis sem heitir 100 Úllar 2024, þar sem fólk er að klífa Úlfarsfell hundrað sinnum á árinu. Við sameinuðum þetta í einn viðburð þar sem er hlaupið í sólarhring. Þetta er svona hálfgert boðhlaup. Það er alltaf einhver á fjallinu. Sumir taka bara eina ferð og sumir taka tíu.“

Þátttakendur í verkefninu á toppi Úlfarsfells.Aðsend

Kjartan tekur fram að mikill samhugur sé meðal þátttakenda og að ýmsir taki þátt í verkefninu af persónulegum ástæðum. Kjartan ítrekar að hver sem er geti skráð sig í hlaupið og hvetur fólk til að taka þátt. Hægt er að skrá sig hér.

„Hérna klukkan þrjú var fjölskylda sem missti mjög náin einstakling fyrir nokkrum dögum úr krabbameini. Það er búinn að vera mikill samhugur en líka mikil gleði. Krabbameinsfélagið er hérna á bílastæðinu með bás og er að bjóða upp á kaffi, kakó og kleinur.“

aðsend.

Klukkan átta fer fram ljósaganga hjá hópnum þar sem um 50 manns munu safnast saman. Hver og einn þátttakandi verður þá með ljós og fara allir þátttakendur samferða leiðina. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×