Á sama tíma skutu Hezbollah um 190 eldflaugum í átt að skotmörkum í Ísrael, flestum nyrst í landinu en samtökin sögðu einnig hafa ráðist gegn hernaðarinnviðum umhverfis Tel Aviv.
Ísraelsher hefur gefið út fjölda viðvarana vegna átakanna, bæði til íbúa í norðurhluta Ísrael en einnig til íbúa í suðurhluta Líbanon. Engu að síður hafa 1.400 látist frá því að herinn hóf aðgerðir sínar og réðist inn í landið, þeirra á meðal almennir borgarar og heilbrigðisstarfsmenn.
Þá hefur fjöldi viðbragðsaðila dáið, þeirra á meðal tíu slökkviliðsmenn sem létust í árás á sunnudag.
Ísraelsher hefur einnig gefið út viðvörun til íbúa í norðurhluta Gasa um að forða sér og er sagður hafa umkringt Jabalia flóttamannabúðirnar. „Við erum í nýjum fasa stríðsins,“ sagði á blöðum sem dreift var á svæðinu. „Þessi svæði eru hættuleg átakasvæði.“
Stjórnvöld í Ísrael minntust þess í gær að ár var liðið frá árásum Hamas-liða á byggðir í Ísrael, sem urðu til þess að Ísrael ákvað að ráðast inn á Gasa. Forsætisráðherrann Benjamin Netanyahu hét því í ávarpi að halda ótrauður áfram og koma í veg fyrir fleiri árásir gegn þjóðinni.
Fjölskyldur þeirra gísla sem enn eru í haldi Hamas komu saman við aðsetur Netanyahu í Jerúsalem í mótmælaskyni. Talið er að 97 gíslar séu enn á Gasa, þar af 34 sem Ísraelsher telur látna.
Joe Biden Bandaríkjaforseti ræddi við Isaac Herzog, forseta Ísrael, í gær og fordæmdi bæði árás Hamas 7. október 2023 og aukna fordóma gegn gyðingum í Bandaríkjunum.