Erlent

Netanyahu heitir hefndum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Netanyahu segir að loftárásir Íran hafi mistekist.
Netanyahu segir að loftárásir Íran hafi mistekist. ap

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels, segir að Íran hafi gert mikil mistök í kvöld, og muni gjalda þess. Þetta sagði hann á fundi öryggisráðs Ísrael í Jerúsalem skömmu eftir árásina.

Að minnsta kosti tvö hundruð skotflaugum var skotið að Ísrael frá Íran í dag. Viðvörunarlúðrar ómuðu víðsvegar í Ísrael og er útlit fyrir að þó nokkrar þeirra hafi náð í gegnum loftvarnir Ísraela og brak úr mörgum féll til jarðar.

Netanyahu segir að árásin hafi mistekist, þökk sé loftvarnarkerfi Ísraels.

„Stjórnendur í Íran skilja ekki hvað við erum ákveðnir í að verja okkur og hefna okkar ... þeir munu skilja að hver sá sem ræðst á okkur, við munum ráðast á þá,“ segir hann.

Þetta eigi við hvar sem Ísrael etji kappi við „illu öflin“ á Vesturbakkanum, Gasa, Líbanon, Jemen, Sýrlandi og Íran.

Hann kallar eftir því að öfl „hinna góðu“ í heiminum sameinist gegn stjórnvöldum í Tehran.

„Þau verða að standa með Ísrael. Valið hefur aldrei verið skýrara milli harðstjórnar og frelsis ... Ísrael er á hreyfingu og illu öflin eru á undanhaldi. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að sú þróun haldi áfram, til að markmið okkar náist í stríðinu,“ segir Netanyahu.

Umrædd markmið séu endurheimt allra gíslanna og að tryggja tilveru og framtíð Ísraelsíkis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×