Erlent

Combs sakaður um enn eina kynferðisárásina

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gloria Allred er lögmaður Graves.
Gloria Allred er lögmaður Graves. AP/Chris Pizzello

Enn einn einstaklingurinn hefur stigið fram og ásakað tónlistar- og athafnamanninn Sean „Diddy“ Combs um kynferðisofbeldi. Kona að nafni Thalia Graves hefur höfðað mál gegn rapparanum, sem hún segir hafa nauðgað sér í New York árið 2001.

Samkvæmt gögnum málsins var Graves 25 ára þegar árásin átti sér stað og í sambandi með starfsmanni Bad Boy, plötuútgáfu Combs. Kvöld eitt hringdi Combs í Graves og sagðist vilja ræða störf kærastans við hana, sótti hana og gaf henni vín í bílnum.

Graves varð í kjölfarið ringluð og veikburða og missti meðvitund þegar komið var í upptökustúdíó Combs.

Þar vaknaði hún síðar nakin með hendur bundnar fyrir aftan bak.

Samkvæmt Graves tók lífvörður Combs, Joseph Sherman, hana upp og skellti henni á borð, þar sem Combs nauðgaði henni. Þá segir hún Sherman hafa neytt sig til munnmaka.

Þegar söngkonan Cassie höfðaði mál gegn Combs greindi fyrrverandi kærasti Graves og starfsmaður Bad Boy henni frá því að Combs og Sherman hefðu sýnt honum og fleirum upptökur af nauðguninni.

Hún hefði þá haft samband við Sherman og freistað þess að fá hann til að eyða upptökunni.

Upptökunni ku hafa verið dreift víðar en það er óvíst hvort hún er enn til.

Combs, sem hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot og skipulagða glæpastarfsemi, hefur neitað sök en þess ber að geta að hann neitaði því einnig að hafa lagt hendur á Cassie þar til myndskeið af ofbeldinu var birt af CNN.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×