Sífellt fleiri úr röðum almennings, barna og ungmenna, stjórnmála, kirkjunnar og skóla hafa stigið fram á ýmsum vettvangi síðustu daga og kallað eftir samfélagsvakningu gegn hnífa- og vopnaburði ungmenna. Ákallið kemur í kjölfar þess að sautján ára stúlka lést eftir hnífaárás sextán ára pilts á Menningarnótt. Nú þurfi allt samfélagið að bregðast við auknum fjölda alvarlegra ofbeldisbrota.

Vandinn kemur glögglega í ljós í fjölda haldlagðra hnífa og vopna í vörslu lögreglu þá bæði frá fullorðnum og ungmennum. Þar hefur orðið gríðarleg aukning síðustu fjögur ár. Mikið er af hættulegum og ólöglegum vopnum sem lögregla leggur hald þegar grunur er um slíkt eða frá vettvangi.
Tekur undir ákall þjóðarinnar
„Ég vil byrja á því að votta fjölskyldu Bryndísar Klöru sem lést af sárum sínum um helgina mína innilegustu samúð. Ég held að þjóðin öll sé reiðubúin núna að stöðva þessa óheillaþróun sem að við höfum séð á síðustu árum,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.

Ríkisstjórnin tók málið fyrir á fundi sínum í morgun og Guðrún boðar hertar aðgerðir.
„Nú erum við að setja af stað aðgerðarhóp sem mun hittast á morgun. Hann á að forgangsraða tillögum okkar og við væntum niðurstöðu þaðan næstu daga þannig að við getum stigið mjög fast inn í þessa þróun,“ segir Guðrún.
Hún tekur fram að í þessari vinnu verði líka horft til aðgerða í málaflokknum sem voru kynntar í sumar.
Erfitt að bregðast fyrr við
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri mætti á fund ríkisstjórnarinnar í morgun og kynnti aðgerðir lögreglu. Hún telur að erfitt hafi verið að bregðast fyrr við aukinni hörku.
„Nei í raun og veru ekki. Við höfum verið að stilla saman strengi. Við höfum verið að búa til aðgerðaráætlanir. Við erum búin að ýta mjög mörgu úr vör. Það sem hins vegar hefur gerst vegna alvarleika þeirra brota sem hafa komið upp að undanförnu er að þá þurfum við að setja meiri kraft í þessi verkefni. Það verður þá gert með samstilltu átaki með auknu fjármagni og forgangsröðun verkefna,“ segir Sigríður.