Íslenski boltinn

Fyrr­verandi þjálfari Gróttu eftir­sóttur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Chris Brazell er án starfs um þessar mundir.
Chris Brazell er án starfs um þessar mundir. Grótta/Eyjólfur Garðarsson

Chris Brazell var á dögunum sagt upp sem þjálfara Gróttu í Lengjudeild karla í fótbolta en félagið er í harði fallbaráttu. Hann staðfesti í stuttu spjalli við Vísi að nokkur lið í Bestu deild karla, sem og eitt í Bestu kvenna, hefði sett sig í samband en hann reiknar þó ekki með að fara neitt í dag, á Gluggadeginum sjálfum.

Brazell er 32 ára gamall Englendingur og hóf störf hjá Gróttu árið 2019. Fyrst sem yfirþjálfari yngri flokka og svo sem aðalþjálfara meistaraflokks karla. Hann var á sínu þriðja tímabili en árangurinn hefur látið á sér standa í ár og því var Brazell látinn taka poka sinn.

Fótbolti.net greindi frá fyrr í dag að nokkur af stærri liðum landsins hefðu hlerað hann með mögulega aðstoðarþjálfarastöðu en Brazell vildi þó ekki gefa upp hvaða lið væri um að ræða þegar Vísir hafði samband.

Sem stendur bíður hann bara rólegur en það virðist öruggt að Englendingurinn verði áfram hér á landi enda fest rætur.

Grótta situr sem stendur í neðsta sæti Lengjudeildarinnar með 13 stig, jafn mörg og Dalvík/Reynir sem er sæti ofar. Leiknir Reykjavík er svo þremur stigum frá fallsvæðinu og Grindavík er með 17 stig í 9. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×