„Við ætlum að koma aftur til Íslands! Það er rétt, við erum búnir að bóka flug til Íslands. Hvers vegna myndum við gera það, gætuð þið spurt. Við spurðum okkur að þeirri spurningu nokkrum sinnum og líka eftir að hafa bókað ferðina,“ segir Zak á samfélagsmiðlinum Tik-Tok.
Fréttastofa ræddi við þá félaga sem komust ekki heim fyrr en eftir fimm vikur á sjúkrahúsi. Þeir sögðu kraftaverk að þeir hefðu verið á lífi en bíllinn sem þeir voru á gjöreyðilagðist.
Vilja þakka fyrir sig
Zak segir meginmarkmiðið vera að græða andleg sár. „Við teljum að það sé mikilvægt að mæta aftur þangað sem þetta gerðist til þess að komast yfir þetta andlega áfall. Að Ísland sé slæmur staður, sem það er ekki.“
Elliot slasaðist alvarlega og fékk því aldrei að sjá Reykjavík né Ísland almennilega, heldur dvaldi hann á Landspítalanum. „Ég fékk að sjá Reykjavík í þrjár og hálfar vikur. Elliot fékk ekki að sjá neitt og við viljum sýna honum það.“
Þá segir Zak að þeir vilji mæta aftur á Landspítalann. Hitta starfsfólkið og koma því á óvart. „Kasta kveðju á alla yndislegu hjúkrunarfræðingana og læknana,“ segir Zak sem bætir því við að þeir félagar muni ekki hætta sér á veginn sjálfir að þessu sinni, heldur nýta sér almenningssamgöngur.