Erlent

Höfuð­paurinn á bak­við á­rásirnar á Ísrael nýr pólitískur leið­togi Hamas

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Ákvörðun leiðtoga Hamas hefur það í för með sér að höfuðpaurinn á bakvið árásirnar 7. október á nú að fara fyrir samningaviðræðum við Ísrael.
Ákvörðun leiðtoga Hamas hefur það í för með sér að höfuðpaurinn á bakvið árásirnar 7. október á nú að fara fyrir samningaviðræðum við Ísrael. AP/Abdel Hana

Hamas samtökin í Palestínu hafa útnefnt Yahya Sinwar sem nýjan pólitískan leiðtoga sinn eftir að Ismail Haniyeh var ráðinn af dögum í Tehran í síðustu viku. 

Tilkynnt var um ákvörðunina í stuttri yfirlýsingu í gærkvöldi sem birt var á palestínskum fréttasíðum og í íranska ríkissjónvarpinu.

Sinwar er einn af stofnendum Hamas og sagður höfuðpaurinn á bakvið árásirnar á Ísrael þann 7. október síðastliðinn, þar sem fjöldi fólks var myrtur. Talið að hann sé nú í felum í göngum á Gasa ströndinni. 

Hann og samtök hans hafa um 120 ísraelska gísla enn í sínu haldi. 

Sinwar hefur ráðið lögum og lofum á Gasa svæðinu undanfarin ár á meðan Hanyeh fór fyrir pólistíska armi samtakanna. 

Þannig tók Hanyeh, sem bjó í Katar en ekki á Gasa, þátt í viðræðum um lausn gíslanna á Gasa en í umfjöllun Guardian segir að hann hafi í raun haft lítil áhrif eða umboð til að ákveða nokkuð fyrir hryðjuverkamennina á svæðinu.

Haft er eftir Aaron David Miller, sérfræðingi hjá Carnegie Endowment for International Peace, að með þeirri ákvörðun að spila Sinwar fram sem pólitískum leiðtoga Hamas, séu samtökin búin að má út línuna á milli Hamas á Gasa og Hamas gagnvart umheiminum og „afhjúpa sitt sanna andlit“.

Yfirvöld í Ísrael hafa sagt það opinberlega að það sé markmið þeirra að koma Sinwar í gröfina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×