Skoðun

Stöndum í lappirnar!

Vilborg Gunnarsdóttir skrifar

Við sem fylgjum Höllu Tómasdóttur forsetaframbjóðanda erum kát þessa dagana. Þvílíkur meðbyr og kúvending sem átt hefur sér stað allt frá fyrstu kappræðunum á RÚV.

Þetta kemur okkur reyndar ekki á óvart þar sem við sem þekkjum Höllu vitum hvað í henni býr. Hún sýndi þjóðinni það líka fyrir 8 árum þegar hún skaust frekar óvænt á stjörnuhimininn nokkrum dögum fyrir kosningar og endaði í 2. sæti.

Í kjölfar þessara fylgisbreytinga í könnunum fara af stað pennar sem vilja að fólk kjósi einn svo annar komist ekki að. Kalla þetta að kjósa „strategískt“. Þá þeysast nettröll út á ritvöllinn og eru sjálfum sér ekki til sóma. Ég kalla þetta hræðsluáróður og hvet fólk sem er enn að gera upp hug sinn að láta það ekki hafa áhrif á sig. Það getur nefnilega allt gerst eins og sýndi sig fyrir 8 árum. Nú eins og þá þýtur Halla Tómasdóttir upp í fylgi og er farin að blanda sér í toppbaráttuna.

Hvert sem komið er þessa dagana og hvar sem litið er á samfélagsmiðlum talar fólk um Höllu Tómasdóttur. Óskað er eftir nærveru hennar um allt og dagatalið er orðið býsna þétt.

Nú ríður á að við stöndum öll í lappirnar og leyfum hjartanu að ráða þegar við merkjum á kjörseðilinn 1. júní. Veljum sterkan leiðtoga á Bessastaði. Sterka og reynslumikla konu sem býr að gríðarlegri reynslu sem nýtast mun í embætti forseta Íslands.

Það skiptir máli fyrir kjósendur að þekkja og vita fyrir hvað frambjóðendur standa. Þeir sem ekki þekkja Höllu Tómasdóttur geta gengið að því sem vísu að hún hefur allt sem þarf til að prýða góðan forseta.

Hún mun sem forseti vinna fyrir alla Íslendinga með rödd skynseminnar á lofti.

Höfundur er stuðningsmaður Höllu Tómasdóttur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×