Skoðun

Ó­heiðar­leiki gagn­vart ör­yrkjum

Svanberg Hreinsson skrifar

Á hverju ári tala ráðherrar um hvað þeir hafa gert mikið fyrir öryrkja. Fyrrverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, og núverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, hafa verið sérstaklega virk í að syngja þetta falska lag. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: „Afkoma örorkulífeyrisþega verður áfram bætt með það að markmiði að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa.“ En hver er raunverulega staða öryrkja nú þegar Katrín Jakobsdóttir stígur frá embætti forsætisráðherra?

Samkvæmt rannsókn Vörðu, rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, eru kjör 88% lífeyrisþega sambærileg eða LAKARI en fyrir ári. Yfir helmingur öryrkja hér á landi horfa upp á kjör sín rýrna árlega. Hvað hafa þá ráðherrar átt við þegar þeir standa í pontu Alþingis til að monta sig um prósentuhækkanir til öryrkja og almannatryggingaþega?

Þær prósentuhækkanir sem öryrkjar hafa fengið árlega frá þessari ríkisstjórn eru vísitöluhækkanir sem, samkvæmt lögum, verður að leggja fram. Vegna mikillar verðbólgu og húsnæðisbólu, sem hefur farið úr öllum böndum undir forystu þessarar ríkisstjórnar, hefur kaupmáttur fatlaðs fólks rýrnað. Ekki var hann mikill fyrir. Þetta sína tölurnar svart á hvítu. Þetta er raunveruleikinn.

Næst þegar þið heyrið ráðherra þessarar ríkisstjórnar hrósa sjálfum sér fyrir þær kjarabætur sem öryrkjar hafa fengið undir þeirra forystu, munið að það er verið að reyna að blekkja ykkur. Staða öryrkja hefur versnað undanfarin ár, öryrkjar eru fátækari í dag en í fyrra.

Höfundur er varaþingmaður Flokks fólksins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×