Fótbolti

Á­kveðið með at­kvæða­greiðslu hvort Fenerbahce dragi sig úr deildar­keppni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Frá óeirðunum þar sem stuðningsmenn Trabzsonspor réðust á leikmenn Fenerbahce.
Frá óeirðunum þar sem stuðningsmenn Trabzsonspor réðust á leikmenn Fenerbahce.

Stjórn tyrkneska knattspyrnufélagsins Fenerbahce kemur saman á morgun og ákveður með atkvæðagreiðslu hvort draga eigi liðið úr deildarkeppni.

Kallað var til fundarins vegna slagsmála sem brutust út að loknum leik gegn Trabzonspor fyrir tveimur vikum. Stuðningsmenn Trabzonspor hlupu inn á völlinn og réðust á leikmenn Fenerbahce.

Tyrkneska knattspyrnusambandið sagði atvikið algjörlega óásættanlegt og aðstoðaði lögreglu við að hafa uppi á tólf mönnum til handtöku.

Í skýrslu sambandsins voru þrír leikmenn og tveir starfsmenn Fenerbahce ávíttir fyrir sinn þátt í slagsmálunum.

Fenerbahce þykir deildin hafa brugðist hlutverki sínu og sé ekki lengur treystandi til að tryggja öryggi leikmanna.

Sem stendur er Fenerbahce í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Galatasaray þegar átta umferðir eru eftir.

Næsti leikur þeirra er gegn Adana Demirspor á miðvikudag, en gangi atkvæðagreiðslan í gegn fer sá leikur augljóslega ekki fram.


Tengdar fréttir

Máttu ekki hita upp merktir stofnanda lýðveldisins og neituðu að spila

Úrslitaleik tyrkneska ofurbikarsins milli Galatasaray og Fenerbache sem átti að fara fram í kvöld hefur verið frestað um óákveðin tíma. Leikmönnum var bannað að hita upp í treyjum merktum Mustafa Kemal Ataturk, stofnanda lýðveldisins Tyrklands, og neituðu því að spila.

Engin stórátök í Álfuslagnum

Stórleikur dagsins fór fram í Tyrklandi þar sem Fenerbahce tók á móti Galatasaray, leikurinn endaði 0-0. Margt hefur gengið á í tyrkneska boltanum síðustu misseri og stóraukið lögreglueftirlit var á svæðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×