Fótbolti

Túfa fær Lju­bicic til Sví­þjóðar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stefan Alexander Ljubicic í leik með Keflavík gegn Val.
Stefan Alexander Ljubicic í leik með Keflavík gegn Val. Vísir/Diego

Framherjinn Stefan Alexander Ljubicic hefur samið við sænska B-deildarliðið Skövde. Þar hittir hann fyrir fyrrverandi þjálfara sinn, Srdjan Tufegdzic.

Hinn 24 ára gamli Ljubicic hefur verið á miklu flakki undanfarin ár en lék síðast með Keflavík hér á landi. Skoraði hann þrjú mörk þegar liðið féll úr Bestu deild karla í knattspyrnu á síðustu leiktíð.

Túfa á hliðarlínunni í leik Vals og Bodø/Glimt fyrir nokkrum árum.Vísir/Bára Dröfn

Hann hefur nú samið við Skövde í Svíþjóð og mun spila með liðinu á komandi leiktíð. Srdjan Tufegdzic, betur þekktur sem Túfa, tók við sem þjálfara liðsins fyrr á þessu ári. Þeir störfuðu saman hjá Grindavík sumarið 2019.

Vonast Túfa til að Ljubicic taki markaskóna með sér til Svíþjóðar en framherjinn skoraði fimm mörk í fimm leikjum fyrir Keflavík í Lengjubikarnum í ár.

Alls á Ljubicic að baki 111 leiki og 28 mörk fyrir Keflavík, Grindavík, HK og KR. Einnig var hann á mála hjá yngri liðum Brighton & Hove Albion á sínum tíma sem og hann var lánaður til liða í neðri deildum Englands. Þá fór hann til Riga í Lettlandi sumarið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×