Í skýrslu starfshópsins, sem heilbrigðisráðherra setti á laggirnar, segir að sýklalyfjaónæmi sé ein stærsta heilbrigðisógn sem heimurinn standi frammi fyrir í dag og að ógnin fari vaxandi með hverju ári. Í sumum löndum greinast sýkingar af völdum baktería sem engin sýklalyf vinna á sem skapar ástand sem minnir á tímann fyrir uppgötvun sýklalyfja. Þverfaglegur starfshópur hefur nú skilað skýrslu með aðgerðum til að sporna gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.
Þórólfur Guðnason, fyrrverandi sóttvarnalæknir, sat í starfshópnum en tillögurnar eru viðamiklar og nálgunin heildstæð.
„Þetta eru aðgerðir sem snúa að mönnum, dýrum, umhverfi, matvælum og fleira þannig að við reynum að hafa þetta eins viðamikið og við getum,“ segir Þórólfur.
Verkefnum er forgangsraðað eftir mikilvægi.
„Helstu atriðin sem skipta þarna máli er fræðsla um sýklalyfjanotkun; að grípa til aðgerða til að reyna að minnka sýklalyfjanotkun og gera hana skynsamlegri, bæði hjá mönnum og dýrum. Reyndar er sýklalyfjanotkun á dýrum í góðu horfi eins og er. Svo snýr þetta mikið að vöktun, að geta fylgst vel með hvað er að gerast.“
Draga þarf úr útbreiðslu sýkinga til að byrja með, til dæmis með bólusetningu, hreinlæti og sóttvörnum.
„Það eru ýmsar bólusetningar sem koma í veg fyrir sýkingar hjá mönnum og börnum til dæmis, sem eru núna í gangi og gætu orðið þýðingamiklar á næstunni sem geta komið í veg fyrir alls konar sýkingar og komið þannig í veg fyrir sýklalyfjanotkun.“
Þórólfur segir ekki von á nýrri og öflugri sýklalyfjum sem geti bjargað okkur úr þessum vanda.
„Það eru mjög fá sýklalyf í þróun og jafnvel þó þau kæmu á markað þá væru þau örugglega mjög dýr, mjög breiðvirk og yrðu örugglega ekki notuð nema í svona völdum tilvikum og það er einmitt þess vegna sem við erum að fram hefja það að það þurfi að grípa til svona aðgerða til að koma í veg fyrir svona hluti, útbreiðslu sýklalyfjaónæmis, því ný sýklalyf munu ekki bjarga okkur út úr þessu vandamáli.“