Innlent

Nú má heita Jörvaldi, Aþanasíus, Fjörður, Ai, Kalix og Ríma

Lovísa Arnardóttir skrifar
Fólk hefur nú úr ýmsu að velja þegar kemur að því að nefna börnin sín.
Fólk hefur nú úr ýmsu að velja þegar kemur að því að nefna börnin sín. Vísir/Vilhelm

Mannanafnanefnd hefur nú samþykkt nöfnin Rick, Raven, Enora, Carlo, Flóres, Jörvaldi, Ian, Mannsi, Amaram, Aþanasíus, Fjörður, Ai, Kalix og Ríma. Þá er búið að samþykkja föður- og móðurkenningarnar Maríusson, Maríusdóttir, Margrétardóttir og Mikaelsdóttir. Úrskurðirnir voru birtir í vikunni á vef stjórnarráðsins.

Um nafnið Rick segir að nafnið taki íslenska eignarfallsendingu, Ricks, og að þó svo að það sé C í nafninu, sem sé ekki samkvæmt íslensku stafrófi, sé hægt að samþykkja nafnið vegna þess að það tekur þessa eignarfallsendingu. 

Um nafnið Ríma segir að það taki íslenskri beygingu í eignarfalli, Rímu, og uppfylli að öðru leyti ákvæði 5. gr. laga um mannanöfn. Ríma sé upprunalega arabískt nafn sem ritað er Reem(a) eða Rim(a) í enskri umritun og verði aðlagað íslenskri stafsetningu í Ríma.

Heilagur Aþanasíus.

Einnig var samþykkt nafnið Aþanasíus og má í því samhengi nefna að Heilagur Aþanasíus fæddist um árið 297 e.Kr. í Alexandríu í Egyptalandi. Þegar hann óx úr grasi varð hann biskup þar í borg. Hann er stundum nefndur heilagur Aþanasíus frá Alexandríu, Aþanasíus mikli, Aþanasíus hinn postullegi eða Aþanasíus hinn helgi. Hann er einn af merkustu kennimönnum kirkjunnar samkvæmt umfjöllun St. Jósefskirkju um hann.

Hvað varðar eftirnöfnin er um að ræða aðlögun erlendra nafna. Afkomandi Mikhail verði Mikaelsson, afkomandi Malgorzata að Margrétardóttir og að afkomendur Mariusz verði Maríusson og Maríusdóttir.


Tengdar fréttir

Múhameð fær blessun manna­nafna­nefndar

Karlmannsnafnið Múhameð er á meðal fjögurra eiginnafna sem mannanafnanefnd samþykkti í vikunni. Kvenmannsnöfnin Latýna og Khanom hlutu hins vegar ekki náð fyrir augum nefndarinnar.

Nú má heita Ívalú, Þorbirna og Emerentíana

Nokkrir úrskurðir féllu hjá mannanafnanefnd í síðustu viku þar sem kvenkyns nöfnin Seba, Þorbirna og Ívalú voru meðal annars samþykkt og færð í mannanafnaskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×