Sjálfstæðisbarátta Eystrasaltsþjóða: Söguleg upprifjun Jón Baldvin Hannibalsson skrifar 21. febrúar 2024 07:01 Sjálfstæðisbarátta ykkar á seinustu áratugum seinustu aldar var þjóðarvakning: syngjandi byltingin. En hún var líka pólitísk grasrótarhreyfing – fyrir lýðræðið: Mannlega keðjan (e. Human chain). Þetta tvennt: Byltingin syngjandi og mannlega keðjan, þar sem meira en milljón manns héldust í hendur frá Tallinn í norðri til Vilníusar í suðri, varð táknmynd hreyfingarinnar. Og vakti athygli um gervallan heim. Fyrstu talsmenn hreyfingarinnar til að heimsækja Ísland, flytja mál sitt og leita eftir stuðningi við málstaðinn – innan NATO, voru Endel Lippmaa, þjóðkunnur vísindamaður, Edgar Savisaar, fyrsti forsætisráðherra Eistlands og Lennart Meri, fyrsti utanríkisráðherrann og seinna forseti Eistlands (1902-2000). Þeir spurðu bara einnar spurningar: Gætu þeir treyst því, að leiðtogar vestrænna lýðræðisríkja byðu þá velkomna í hóp lýðræðisríkja? VONBRIGÐI Annað átti eftir að koma á daginn. Frelsishetjunum var tekið eins og hverjum öðrum boðflennum, - jafnvel „friðarspillum“. Þeir voru beðnir um að hafa hægt um sig, leita samninga – án fyrirframskilyrða – um aukna sjálfstjórn. Hvers vegna? Vegna þess að ef þessar þjóðir slyppu út úr þjóðafangelsi Sovétríkjanna gæti það hrint af stað óæskilegri atburðarás. Gorbachev var samstarfsaðili í samningum um endalok Kalda stríðsins. Hann var ekki bara aðalritari Kommúnistaflokksins heldur forseti Sovétríkjanna. Ef Sovétríkin leystust upp, myndi hann hrökklast frá völdum. Harðlínumenn kæmust aftur til valda. Það gæti leitt af sér nýtt Kalt stríð og jafnvel styrjaldarátök í Mið- og Austur Evrópu. Leiðtogar Vesturveldanna höfðu vissulega rétt fyrir sér um aðalatriðið: Það var mikið í húfi. Frelsun þjóða Mið- og Austur Evrópu undan oki Sovétríkjanna; friðsamleg sameining Þýskalands og áframhaldandi aðild sameinaðs Þýskalands að NATO; afvopnunarsamningar – bæði um venjuleg vopn og kjarnavopn; brottvísun hernámsliða og fækkun í herjum. Allt snerist þetta um stríð eða frið. En leiðtogum Vesturveldanna hafði orðið alvarlega á í samningatafli stórveldanna. Þeir héldu, að þeir ættu allt undir pólitískum örlögum eins manns, Mikhail Sergeyevich Gorbachev, um samningsárangur sinn. Þess vegna mátti ekkert segja eða gera, sem stefndi völdum Gorbachevs í hættu. Ef það þýddi að halda Sovétríkjunum saman – þá yrði það svo að vera. Áhyggjur af hvað yrði um kjarnavopnabúr Sovétríkjanna, ef þau leystust upp, hafði sín áhrif. Leiðtogar Vesturveldanna gætu ekki látið uppreisnarmenn á jaðri Sovétríkjanna stofna í hættu samningum leiðtoganna um endalok Kalda stríðsins. Leiðtogar Vesturveldanna höfðu (ómeðvitað?) snúið öllu á haus. Hvers vegna höfðum við háð Kalt stríð í næstum hálfa öld – ef ekki til þess að frelsa undirokaðar þjóðir (e.the captive nations)? Frelsisbarátta þeirra var allt í einu í andstöðu við yfirlýsta stefnu leiðtoga lýðræðisins! Stóðst það nánari skoðun, að Gorbachev væri hinn óumdeildi leiðtogi lýðræðisaflanna? Rétt svör við þessum og álíka spurningum bentu til þess, að greiningin á innanlandsástandinu í Sovétríkjunum væri yfirborðskennd og grunnhyggin. Þess vegna var stefnan órökvís og óraunsæ. Það var þess vegna sem Kohl Þýskalandskanslari og Mitterand Frakklandsforseti skrifuðu Landsbergis, leiðtoga Sajiudis, sameiginlegt bréf, þar sem þeir skoruðu á hann að fresta framkvæmd sjálfstæðisyfirlýsingar Litháen og semja við Sovétið – án fryrirfram skilyrða. Það var þess vegna, sem nýskipuðum utanríkisráðherrum Eystrasaltsþjóða var vísað á dyr á ráðstefnum um endalok Kalda stríðsins og nýskipan heimsmála. Og það var þess vegna - þar sem þeir sættu þöggun - að við ákváðum að ljá þeim rödd Íslands á alþjóðavettvangi – einkum innan NATO. Það var vegna þess, að það var orðið ginnungargap milli opinberra yfirlýsinga leiðtoganna um lýðræði og mannréttindi annars vegar og hins vegar þeirrar realpolitíkur, sem þeir fylgdu bak við byrgðar dyr. HVERS VEGNA ÍSLAND? Ein skýring, persónulegri, er þessi: Elsti bróðir minn var fyrsti stúdentinn frá Vestur-Evrópu til að útskrifast frá Moskvuháskóla eftir stríð (1954-59). Hann stundaði framhaldsnám í Póllandi, þar sem hann nam m.a. undir leiðsögn Kolakowski. Sjálfur stundaði ég framhaldsnám sem Fulbright styrkþegi við Harvard (1976-77), þar sem rannsóknarverkefnið var samanburður hagkerfa. Ég hafði þá þegar komist að þeirri niðurstöðu, að Sovétríkin væru í tilvistarkreppu, efnahagslega og pólitískt ósjálfbær, og dæmd til að lúta í lægra haldi í samkeppni við Vesturlönd. Niðurstöður mínar rýmuðu vel við eftirfarandi lýsingu Davids Gompert, aðstoðarmanns Kissingers, á endalokum Sovétríkjanna: „Hvað var sovétkommúnisminn? Hann var blanda af marxískri hugmyndafræði, miðstýrðum áætlunarbúskap, skriffinnskubákni flokks og ríkis, rússneskri heimsvaldastefnu og valdatafli við Vesturlönd. Allt þetta hrundi loks undan eigin þunga. Hugmyndafræðin þoldi ekki sannleikann; miðstýringin missti af nútímavæðingunni; skriffinnskukerfið var offitusjúklingur; áróðurinn var stagnaður; hernaðarbáknið var ofvaxið; vígbúnaðarkapphlaupið sogaði til sín allt fjárfestingarfjármagn; og heimsvaldastefnan, sem kallaði á íhlutun vítt og breitt um heiminn, kostaði gjaldþrot. Mannfallið í Afganistan varð að lokum óbærilegt. Sovétríkin gátu ekki lengur keppt við Vesturlönd, hvorki tæknilega, efnahagslega, hernaðarlega, né á vígvelli hugmyndanna. Það gerði svo illt verra, að verðið á jarðefnaeldsneyti (olíu og gasi) - aðaltekjustofninum – hrundi.“ Sovétríkin voru í reynd gjaldþrota. Við bræður höfum sambönd við andófsöfl innan Rússlands, í Eistlandi, Lithaén, Póllandi og Tékkoslóvakíu. Á námsárum mínum hafði ég sótt námskeið, ásamt öðrum námsmönnum frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum, í Zakopane í Póllandi (1961). Námskeiðið var kennt við umbreytinguna á átt að „félagslegu markaðskerfi“. Tilgangurinn var að kynna okkur hugmyndir og kenningar pólska útlagahagfræðingsins, Oscars Lange. Meðal kennaranna var Ota Sik, semhefði borið ábyrgð á að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd, undir pólitískri forystu Dubceks, ef vorið í Prag 1968 hefi fengið að blómstra. Með þennan bakgrunn í huga má segja, að ég hafi ekki verið fullkomlega fáfróður um stöðu mála í Sovétríkjunum – eins og flestir utanríkisráðherrar NATO- ríkjanna voru - í reynd. ÞEGAR UFFI VARÐ AÐ LÚFFA Í JÚNÍ 1990 – á sjálfan Dannebrogs daginn - hófst í Kaupmannahöfn ráðstefna OSCE (Stofnunar um samvinnu og öryggi Evrópuþjóða). Allir utanríkisráðherrar Evrópuríkja – þ.m.t. Sovétríkjanna – og N. Ameríku voru mættir. Ráðstefnan var liður í fundaröð um skipan mála að loknu Köldu stríði.Þessi átti að fjalla um mannréttindi og sjálfákvörðunarrétt þjóða í hinni nýju heimsskipan. Danski utanríkisráðherrann, starfsbróðir minn, Uffe Ellemann Jensen, var gestgjafinn. Hann hafði boðið utanríkisráðherrum Eystrasaltsþjóðanna að ávarpa fundinn. Þegar fulltrúi Sovétríkjanna varð þeirra var, sagði hann: „Annað hvort yfirgefa þeir ráðstefnuna þegar í stað – eða við förum“. Minn danski starfsbróðir vildi ekki bera ábyrgð á því að „eyðileggja friðarferlið“. Uffi lúffaði. Ykkur var vísað á dyr. Ráðstefnan hélt áfram, eins og ekkert hefði í skorist. Þar til röðin var komin að mér. Ég ákvað að tala eingöngu um málstað Eystrasaltsþjóða – eins og andinn innblés mér – og um það sem hafði gerst. Skv. útskrift frá danska utanríkisráðuneytinu, sagði ég m.a.: „Við getum ekki látið eins og að „friðarferlið“ réttlæti að fórna lögmætum kröfum Eystrasaltsþjóðanna um endurheimt sjálfstæðis. Mannréttindi og sjálfákvörðunarréttur þjóða verða ekki sundurslitin. Það er ekki á okkar valdi að leyfa sumum en banna öðrum. Við erum að tala um mannréttindi – ekki forréttindi. Það er óumdeild söguleg staðreynd, að Eystrasaltsþjóðirnar voru sjálfstæði ríki og nutu sem slík viðurkenningar alþjóðasamfélagsins, þ.m.t. Sovétríkjanna. Í seinni heimsstyrjöldinni urðu þær fórnarlömb hernaðarinnrása, hernáms og að lokum innlimunar í Sovétríkin. Þjóðþing Sovétríkjanna (Congress of People´s Deputies) hefur nú viðurkennt ólögmæti þessara aðgerða með því að lýsa Molotov-Ribbentrop samninginn milli Hitlers og Stalíns „null and void“. Þegar ég yfirgaf ræðustólinn, gekk maður í veg fyrir mig, faðmaði mig og sagði: „Það eru forréttindi að vera fulltrúi smáþjóða og leyfast að segja sannleikann“. – „Leyft af hverjum?“, muldraði ég? Þetta var Max Kampelmann, víðkunnur Sovétfræðingur og einn af aðalsamningamönnum Bandaríkjanna í Genf. Sem ég stefndi að sæti mínu, gekk annar maður í veg fyrir mig, steytti hnefann og hrópaði: „Þú átt að skammast þín, Jón Baldvin; það var ekki satt orð í þessari endemisræðu þinni um samskipti Eystrasaltsþjóða og Sovétríkjanna“. Þetta var Juri Resetov, sovéskur mannréttindasérfræðingur – ef það er ekki „oxymoron“ – og síðar sendiherra Rússa í Reykjavík. Enginn hinna ráðherranna mælti orð af vörum. UPPGJÖRIÐ Í FYRSTU VIKU JANÚAR 1991 hafði Gorbachev samþykkt kröfu harðlínumanna um að láta til skarar skríða í Eystrasaltslöndum. Sérsveitir voru sendar á vettvang og skriðdrekarnir rúlluðu af stað. Ég var vakinn upp um miðja nótt með símhringingu frá Vilníus. Á hinum enda línunnar var Landsbergis. Hann sagði: „Ef þú meinar eitthvað með því, sem þú hefur sagt okkur til stuðnings, komdu strax til Vilníus. Rússarnir hafa ákveðið að ganga frá okkur. Nærvera utanríkisráðherra NATO skiptir máli“. Í bók minni „The Baltic Road to Freedom – Iceland´s Role“ lýsi ég þessari reynslu með eftirfarandi orðum: „Ég verð aldrei svo gamall, að ég gleymi þessum dögum. Hundruð þúsunda manna allt um kring. Þau stóðu við varðeldana í þessum bitra janúarkulda, héldust í hendur og sungu ættjarðarsöngva. Ég var vitni að því að þjóð, óvopnuð og ein og yfirgefin, horfðist í augu við byssuhlaupin í nafni frelsis og mannlegrar reisnar. Það voru vissulega forréttindi að fá að standa með fólkinu á þessari ögurstundu“. Herstjórnarllistin að baki ofbeldinu var sú sama og nú í Suður- og Austur-héruðum Úkraínu. Reynt var að setja á svið átök milli þjóðernisminnihluta til þess að réttlæta íhlutun Rauða hersins. Því næst átti að lýsa yfir neyðarástandi, leysa upp þingið og reka ríkisstjórnina frá völdum, í því skyni að koma aftur á lögum og reglu. Þetta hljómar kunnuglega. Fólk var drepið og limlest, bæði í Vilníus og Riga. Má vera, að koma Yeltsin til Tallinn hafi forðað ykkur frá sama hlutskipti? Við Landsbergis héldum ótal blaðamannafundi til að vekja athygli heimsins á ástandinu og skoruðum á Gorbachev að stöðva blóðbaðið. Til þess að fylgja málum eftir heimsótti ég Riga og Tallinn í sömu ferð. Við gáfum út sameiginlegar yfirlýsingar, þar sem málstaðurinn var skýrður og ofbeldið fordæmt. Krafist var friðsamlegra lausna. Sovétstjórnin brást við með því að kalla sendiherra sinn heim frá Reykjavík og sakaði íslensku ríkisstjórnina um „íhlutun um innri mál Sovétríkjanna.“ LÖGFRÆÐIÁLIT Ég tók þá ásökun grafalvarlega. Ég setti saman vinnuhóp sérfræðinga í alþjóðalögum með veigamiklu framlagi frá Eistlandi, sem skilaði fræðilegri greinargerð, þar sem sýnt var fram á með lagarökum, að Ísland væri ekki að blanda sér í sovésk innanríkismál; að Sovétríkin hefðu með mörgum alþjóðasamningum skuldbundið sig til að virða landamæri annarra ríkja; að Eystrasaltsþjóðirnar hefðu verið innlimaðar í Sovétríkin – ólöglega; og að þjóðþing Sovétríkjanna (Congress of People´s Deputies) hefði viðurkennt lögleysuna með því að lýsa Molotov-Ribbentrop samninginn „null and void“. Að lokum sagði þar, að aðgerðir Íslands varðandi endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltþjóða væru hluti af þeim róttæku breytingum á pólitísku landslagi í Evrópu, sem nú væri verið að semja um. Engar þessara breytinga, sem þegar væru staðfestar, hefðu getað átt sér stað nema fyrir frumkvæði Sovétríkjanna sjálfra. Þær væru því í fullu samræmi við yfirlýsta stefnu Sovétríkjanna. Við erum enn að bíða eftir svari við þessari fræðilegu greinargerð! Hvers vegna létu Kremlverjar staðar numið – á ystu nöf? Ég er ekki í minnsta vafa um svarið. Viðbrögð fólksins, sem óttalaust og óvopnað horfðist í augu við drápsvél skriðdrekanna, voru svo afdráttarlaus, að hefði verið beitt öllu afli, hefðu afleiðingarnar orðið blóðugasta fjöldamorð í Evrópu eftir stríð. Það var einum of mikið fyrir friðarverðlaunahafa Nóbels, Mikhail Sergeyevich Gorbachev að hafa á samviskunni. Ef viljinn til að beita ofbeldi er á þrotum, þýðir það endalok lögregluríkisins. Það var engin leið að halda Sovétríkjunum saman – án valdbeitingar. Það var ekki fyrr en síðar að við gerðum okkur grein fyrir því, að við hefðum orðið vitni að sögulegum atburðum – endalokum Sovétríkjanna. LOKAKAFLINN VALDARÁNSTILRAUNIN Í MOSKVU hófst 19da ágúst, 1991. Tveimur dögum síðar komu utanríkisráðherrar NATO saman í Brussel. Á þeirri stundu vissi enginn, hver færi með völdin í Kreml. Aðalritari NATO, Manfred Wörner, var beðinn um að freista þess að ná sambandi við Boris Yeltsin. Hálftíma síðar kom Wörner til baka með eftirfarandi yfirlýsingu frá Yeltsin: „Valdaránstilraunin væri runnin út í sandinn. Hann, Boris Yeltsin, væri nú leiðtogi lýðræðisaflanna. Lýðræðisöflin hefðu nú undirtökin. Yeltsin skoraði á utanríkisráðherra NATO ríkjanna, sem saman væru komnir í Brussel, að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að styðja við bakið á lýðræðisöflunum“. Þegar röðin kom að mér að bregðast við boðskap Yeltsin, lagði ég frá mér undirbúna ræðu, eins og í Kaupmannahöfn forðum, og talaði um hina gerbreyttu stöðu. Skv. útskrift sagði ég m.a. eftirfarandi: „Má ég minna á, að hingað til höfum við verið beðnir um að segja ekkert og gera ekkert, sem geti stefnt völdum Gorbachevs í hættu, því að þá kæmu harðlínumennirnir til valda, og þar með yrði friðarferlinu stefnt í voða? Þessi afstaða hefur nú reynst vera á misskilningi byggð. Harðlínumennirnir hefðu reynt að ná völdum, en mistekist. Gorbachev, sem hefði bara eitt markmið - að halda Sovétríkjunum saman undir nýrri stjórnarskrá - hefði misst völdin. Hinn nýi leiðtogi lýðræðisaflanna væri Boris Yeltsin. Þjóðþing Sovétríkjanna hefði þegar lýst Molotov-Ribbentrop samninginn „null and void“. Með því hefði hin nýja forysta Rússlands viðurkennt, að hernám og innlimun Eystrasaltsþjóðanna hefðu verið ólögleg. Í hálfa öld hefðu Eystrasaltsþjóðirnar mátt þola endurtekna nauðungarflutninga til Síberíu og undirokun tungu og menningar. Þess vegna bæri okkur siðferðileg skylda til að styðja endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsþjóða, ekki síður en annarra þjóða í Mið - og Austur Evrópu.“ Viðbrögðin við þessari ræðu voru kurteisleg þögn. Rétt er að hafa í huga, að þremur vikum áður, þann 1. ágúst 1991 hafði George H.W. Bush, Bandaríkjaforseti,haldið sína alræmdu „Kjúklingaræðu“ í Verkhovna Rada – þjóðþinginu í Úkraínu. Í þessari ræðu skoraði forsetinn á Úkraínumenn að „láta ekki stjórnast af öfgakenndri þjóðernishyggju“. Þeir ættu að „halda Sovétríkjunum saman í nafni friðar og stöðugleika“. Þremur vikum síðar lýstu Úkraínumenn yfir sjálfstæði. Og 140 dögum síðar voru Sovétríkin ekki lengur til. Yfirlýstri stefnu sjálfskipaðs forystumanns lýðræðisríkjanna hafði verið rækilega hafnað. FRUMKVÆÐIÐ Á leiðinni heim frá Brussel settist ég að í Sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn. Þaðan reyndum við langt fram á nótt að ná símasambandi við leiðtoga Eystrasaltsþjóðanna. Boðskapur minn var einfaldur: Það geysar valdabarátta í Kreml, og yfirlýst stefna Vesturveldanna hingað til hefur beðið skipbrot. Nú er rétti tíminn til athafna. Ég sendi nýskipuðum utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna formleg boðsbréf um að koma til Reykjavíkur þegar í stað. Þar myndum við árétta viðurkenningu á endurheimtu sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og koma á formlegum diplómatískum samskiptum. Ég var sannfærður um, að við ríkjandi aðstæður myndu aðrar þjóðir fylgja fordæmi okkar. Ferlið myndi reynast óafturkallanlegt. Það reyndist vera rétt mat. Utanríkisráðherrarnir Lennart Meri, frá Eistlandi (síðar forseti 1992-2000), Janis Jurkans frá Lettlandi og Algirdas Saudargas frá Litháen komu saman í Höfða 26. ágúst 1991. Það var táknrænt, að þetta var á sama stað og Reagan – Gorbchev höfðu haldið leiðtogafund sinn árið 1986 – fund, sem síðar reyndist hafa verið upphafið að endalokum Kalda stríðsins. Lennart Meri talaði fyrir okkur öll, þegar hann sagði: „Seinni heimsstyrjöldin byrjaði þann 23. ágúst 1939 með undirritun Molotov-Ribbentrop samningsins og leyniskjala hans, að undirlagi Hitlers og Stalíns. Með undirritun okkar hér í dag lýkur Seinni heimsstyrjöldinni í okkar heimshluta. Við erum hingað komin til að sameinast aftur fjölskyldu lýðræðisríkja Evrópu“. Blekið var ekki fyrr þornað á undirskriftum okkar en boð tóku að berast frá höfuðborgum Evrópu – þar sem talsmönnum sjálfstæðishreyfinganna hafði áður verið úthýst – til utanríkisráðherra Eystrasaltsþjóðanna um að koma þar við og endurtaka það sem gert hafði verið i Reykjavík. Bandaríkin náðu því að vera degi á undan Sovétríkjunum. Nokkrum vikum seinna voru Sovétríkin ekki lengur til. LÆRDÓMAR? Þið hafið náð eftirtektarverðum árangri í umskiptunum frá nýlendustjórn til sjálfstæðis; frá miðstýrðu lögregluríki til valddreifðs markaðshagkerfins; og frá einræði til lýðræðis. Þið hafið byggt upp helstu stofnanir lýðræðisins og aðlagast innri markaði Evrópu og alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Þið vissuð af eigin reynslu, að þið þurftuð að festa þessar stofnanir í sessi og að taka út tryggingu fyrir ykkar brothætta sjálfstæði. Þetta tókst ykkur með því að ganga í Evrópusambandið og NATO. Nú sitjið þið við borðið, þar sem ákvarðanirnar eru teknar. Þið hafið lært mikið af þessari reynslu og getið deilt henni með ykkar umsetnu nágrönnum – Úkraínu. Úkraínumenn lýstu einnig yfir sjálfstæði. Þeir gerðu það í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu, sem sýndi, að meira en 90% þjóðarinnar – og meirihluti í öllum héruðum, líka þeim þar sem Rússar eru fjölmennastir – studdi sjáflstæðisyfirlýsinguna.Bandarísk stjórnvöld sannfærðu ríkisstjórn Úkraínu á sínum tíma um, að rétt væri að afhenda öll kjarnavopn á yfirráðasvæði Úkraínu í hendur Rússum. Í staðinn lýstu ríkisstjórnir Bandaríkjanna, Rússlands og Bretlands því yfir, að þær ábyrgðust landamæri Úkraínu. Þessar ríkisstjórnir hafa ekki staðið við sín loforð. Árásarstríð Pútins gegn Chechnya, Georgiu og nú Úkraínu taka af öll tvímæli um, að hann stefnir að endurreisn rússneska heimsveldisins. Hann vill gera „Russia great again“ – að kunnri fyrirmynd. Úkraínumenn hafa getað varist árásum Pútins. En þeir hafa ekki getað endurheimt héruðin í Suð-Austur Ukraínu, sem Rússar höfðu áður yfirtekið. Úkraínumenn eru ekki bara að berjast fyrir friðhelgi eigin lands. Þeir eru að berjast fyrir fullveldisrétti sínum til að ráða því sjálfir, í hvers konar þjóðfélagi þeir vilja lifa. Eins og þið, vilja þeir aðild að Evrópusambandinu. Eins og þið, vilja þeir búa við lýðræði og réttarríki. Þeirra stríð er því líka ykkar stríð - okkar stríð. Þess vegna eiga leiðtogar vestrænna lýðræðisríkja að láta Úkraínumönnum í té þau tæki sem þarf til að vinna þetta stríð. Ef þeir standa ekki við það, ber ykkur að leiðrétta stefnuna. Ef Trump vinnur forsetakosningarnar í Bandaríkjunum undir árslok og Ameríka yfirgefur þar með Evrópu og NATO, þá er það ykkar skylda að tryggja, að Evrópa haldi áfram að styðja Úkraínu í þessu stríði – fyrir lýðræðið. Það er lexían, sem við lærum af þessari sögu. Höfundur var utanríkisráðherra Íslands árin 1988 til 1995. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Baldvin Hannibalsson Eistland Lettland Litháen Sovétríkin Utanríkismál Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Skoðun Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson skrifar Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir skrifar Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson skrifar Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir skrifar Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Dans verkalýðsleiðtoga í kringum gullkálfinn Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Jól í sól versus jóla í dimmu Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson skrifar Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson skrifar Skoðun Er janúar leiðinlegasti mánuður ársins? Dagbjört Harðardóttir skrifar Skoðun Svar við hótunum Eflingar Sigurður G. Guðjónsson skrifar Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar Skoðun Manni verður kalt ef maður pissar í skóinn sinn Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar Skoðun Skautun eða tvíhyggja? Þóra Pétursdóttir skrifar Skoðun Egóið er í hégómanum Skúli S. Ólafsson skrifar Skoðun Dæmalaus málflutningur Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Grýtt eða greið leið? Þröstur Sæmundsson skrifar Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Hugleiðing um listamannalaun III Þórhallur Guðmundsson skrifar Skoðun Dæmalaust mál Sigursteinn Másson skrifar Skoðun „Stórfelldir og siðlausir fjármagnsflutningar“ - Áskorun á Ole Anton Bieltvedt Hjalti Þórisson skrifar Skoðun Tjáningarfrelsið, ábyrgð og Snorri Másson Bjarndís Helga Tómasdóttir ,Kári Garðarsson skrifar Skoðun Þegar Trölli stal atkvæðum Eyjólfur Ingvi Bjarnason skrifar Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar Skoðun Tækifæri gervigreindar í menntun Páll Ásgeir Torfason skrifar Skoðun Sjálfstæð hugsun á tímum gervigreindar Árni Sigurðsson skrifar Skoðun Framtíð menntunar er í einkarekstri Unnar Þór Sæmundsson skrifar Skoðun Er lítil samkeppni á fjármálamarkaði? Gústaf Steingrímsson skrifar Sjá meira
Sjálfstæðisbarátta ykkar á seinustu áratugum seinustu aldar var þjóðarvakning: syngjandi byltingin. En hún var líka pólitísk grasrótarhreyfing – fyrir lýðræðið: Mannlega keðjan (e. Human chain). Þetta tvennt: Byltingin syngjandi og mannlega keðjan, þar sem meira en milljón manns héldust í hendur frá Tallinn í norðri til Vilníusar í suðri, varð táknmynd hreyfingarinnar. Og vakti athygli um gervallan heim. Fyrstu talsmenn hreyfingarinnar til að heimsækja Ísland, flytja mál sitt og leita eftir stuðningi við málstaðinn – innan NATO, voru Endel Lippmaa, þjóðkunnur vísindamaður, Edgar Savisaar, fyrsti forsætisráðherra Eistlands og Lennart Meri, fyrsti utanríkisráðherrann og seinna forseti Eistlands (1902-2000). Þeir spurðu bara einnar spurningar: Gætu þeir treyst því, að leiðtogar vestrænna lýðræðisríkja byðu þá velkomna í hóp lýðræðisríkja? VONBRIGÐI Annað átti eftir að koma á daginn. Frelsishetjunum var tekið eins og hverjum öðrum boðflennum, - jafnvel „friðarspillum“. Þeir voru beðnir um að hafa hægt um sig, leita samninga – án fyrirframskilyrða – um aukna sjálfstjórn. Hvers vegna? Vegna þess að ef þessar þjóðir slyppu út úr þjóðafangelsi Sovétríkjanna gæti það hrint af stað óæskilegri atburðarás. Gorbachev var samstarfsaðili í samningum um endalok Kalda stríðsins. Hann var ekki bara aðalritari Kommúnistaflokksins heldur forseti Sovétríkjanna. Ef Sovétríkin leystust upp, myndi hann hrökklast frá völdum. Harðlínumenn kæmust aftur til valda. Það gæti leitt af sér nýtt Kalt stríð og jafnvel styrjaldarátök í Mið- og Austur Evrópu. Leiðtogar Vesturveldanna höfðu vissulega rétt fyrir sér um aðalatriðið: Það var mikið í húfi. Frelsun þjóða Mið- og Austur Evrópu undan oki Sovétríkjanna; friðsamleg sameining Þýskalands og áframhaldandi aðild sameinaðs Þýskalands að NATO; afvopnunarsamningar – bæði um venjuleg vopn og kjarnavopn; brottvísun hernámsliða og fækkun í herjum. Allt snerist þetta um stríð eða frið. En leiðtogum Vesturveldanna hafði orðið alvarlega á í samningatafli stórveldanna. Þeir héldu, að þeir ættu allt undir pólitískum örlögum eins manns, Mikhail Sergeyevich Gorbachev, um samningsárangur sinn. Þess vegna mátti ekkert segja eða gera, sem stefndi völdum Gorbachevs í hættu. Ef það þýddi að halda Sovétríkjunum saman – þá yrði það svo að vera. Áhyggjur af hvað yrði um kjarnavopnabúr Sovétríkjanna, ef þau leystust upp, hafði sín áhrif. Leiðtogar Vesturveldanna gætu ekki látið uppreisnarmenn á jaðri Sovétríkjanna stofna í hættu samningum leiðtoganna um endalok Kalda stríðsins. Leiðtogar Vesturveldanna höfðu (ómeðvitað?) snúið öllu á haus. Hvers vegna höfðum við háð Kalt stríð í næstum hálfa öld – ef ekki til þess að frelsa undirokaðar þjóðir (e.the captive nations)? Frelsisbarátta þeirra var allt í einu í andstöðu við yfirlýsta stefnu leiðtoga lýðræðisins! Stóðst það nánari skoðun, að Gorbachev væri hinn óumdeildi leiðtogi lýðræðisaflanna? Rétt svör við þessum og álíka spurningum bentu til þess, að greiningin á innanlandsástandinu í Sovétríkjunum væri yfirborðskennd og grunnhyggin. Þess vegna var stefnan órökvís og óraunsæ. Það var þess vegna sem Kohl Þýskalandskanslari og Mitterand Frakklandsforseti skrifuðu Landsbergis, leiðtoga Sajiudis, sameiginlegt bréf, þar sem þeir skoruðu á hann að fresta framkvæmd sjálfstæðisyfirlýsingar Litháen og semja við Sovétið – án fryrirfram skilyrða. Það var þess vegna, sem nýskipuðum utanríkisráðherrum Eystrasaltsþjóða var vísað á dyr á ráðstefnum um endalok Kalda stríðsins og nýskipan heimsmála. Og það var þess vegna - þar sem þeir sættu þöggun - að við ákváðum að ljá þeim rödd Íslands á alþjóðavettvangi – einkum innan NATO. Það var vegna þess, að það var orðið ginnungargap milli opinberra yfirlýsinga leiðtoganna um lýðræði og mannréttindi annars vegar og hins vegar þeirrar realpolitíkur, sem þeir fylgdu bak við byrgðar dyr. HVERS VEGNA ÍSLAND? Ein skýring, persónulegri, er þessi: Elsti bróðir minn var fyrsti stúdentinn frá Vestur-Evrópu til að útskrifast frá Moskvuháskóla eftir stríð (1954-59). Hann stundaði framhaldsnám í Póllandi, þar sem hann nam m.a. undir leiðsögn Kolakowski. Sjálfur stundaði ég framhaldsnám sem Fulbright styrkþegi við Harvard (1976-77), þar sem rannsóknarverkefnið var samanburður hagkerfa. Ég hafði þá þegar komist að þeirri niðurstöðu, að Sovétríkin væru í tilvistarkreppu, efnahagslega og pólitískt ósjálfbær, og dæmd til að lúta í lægra haldi í samkeppni við Vesturlönd. Niðurstöður mínar rýmuðu vel við eftirfarandi lýsingu Davids Gompert, aðstoðarmanns Kissingers, á endalokum Sovétríkjanna: „Hvað var sovétkommúnisminn? Hann var blanda af marxískri hugmyndafræði, miðstýrðum áætlunarbúskap, skriffinnskubákni flokks og ríkis, rússneskri heimsvaldastefnu og valdatafli við Vesturlönd. Allt þetta hrundi loks undan eigin þunga. Hugmyndafræðin þoldi ekki sannleikann; miðstýringin missti af nútímavæðingunni; skriffinnskukerfið var offitusjúklingur; áróðurinn var stagnaður; hernaðarbáknið var ofvaxið; vígbúnaðarkapphlaupið sogaði til sín allt fjárfestingarfjármagn; og heimsvaldastefnan, sem kallaði á íhlutun vítt og breitt um heiminn, kostaði gjaldþrot. Mannfallið í Afganistan varð að lokum óbærilegt. Sovétríkin gátu ekki lengur keppt við Vesturlönd, hvorki tæknilega, efnahagslega, hernaðarlega, né á vígvelli hugmyndanna. Það gerði svo illt verra, að verðið á jarðefnaeldsneyti (olíu og gasi) - aðaltekjustofninum – hrundi.“ Sovétríkin voru í reynd gjaldþrota. Við bræður höfum sambönd við andófsöfl innan Rússlands, í Eistlandi, Lithaén, Póllandi og Tékkoslóvakíu. Á námsárum mínum hafði ég sótt námskeið, ásamt öðrum námsmönnum frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum, í Zakopane í Póllandi (1961). Námskeiðið var kennt við umbreytinguna á átt að „félagslegu markaðskerfi“. Tilgangurinn var að kynna okkur hugmyndir og kenningar pólska útlagahagfræðingsins, Oscars Lange. Meðal kennaranna var Ota Sik, semhefði borið ábyrgð á að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd, undir pólitískri forystu Dubceks, ef vorið í Prag 1968 hefi fengið að blómstra. Með þennan bakgrunn í huga má segja, að ég hafi ekki verið fullkomlega fáfróður um stöðu mála í Sovétríkjunum – eins og flestir utanríkisráðherrar NATO- ríkjanna voru - í reynd. ÞEGAR UFFI VARÐ AÐ LÚFFA Í JÚNÍ 1990 – á sjálfan Dannebrogs daginn - hófst í Kaupmannahöfn ráðstefna OSCE (Stofnunar um samvinnu og öryggi Evrópuþjóða). Allir utanríkisráðherrar Evrópuríkja – þ.m.t. Sovétríkjanna – og N. Ameríku voru mættir. Ráðstefnan var liður í fundaröð um skipan mála að loknu Köldu stríði.Þessi átti að fjalla um mannréttindi og sjálfákvörðunarrétt þjóða í hinni nýju heimsskipan. Danski utanríkisráðherrann, starfsbróðir minn, Uffe Ellemann Jensen, var gestgjafinn. Hann hafði boðið utanríkisráðherrum Eystrasaltsþjóðanna að ávarpa fundinn. Þegar fulltrúi Sovétríkjanna varð þeirra var, sagði hann: „Annað hvort yfirgefa þeir ráðstefnuna þegar í stað – eða við förum“. Minn danski starfsbróðir vildi ekki bera ábyrgð á því að „eyðileggja friðarferlið“. Uffi lúffaði. Ykkur var vísað á dyr. Ráðstefnan hélt áfram, eins og ekkert hefði í skorist. Þar til röðin var komin að mér. Ég ákvað að tala eingöngu um málstað Eystrasaltsþjóða – eins og andinn innblés mér – og um það sem hafði gerst. Skv. útskrift frá danska utanríkisráðuneytinu, sagði ég m.a.: „Við getum ekki látið eins og að „friðarferlið“ réttlæti að fórna lögmætum kröfum Eystrasaltsþjóðanna um endurheimt sjálfstæðis. Mannréttindi og sjálfákvörðunarréttur þjóða verða ekki sundurslitin. Það er ekki á okkar valdi að leyfa sumum en banna öðrum. Við erum að tala um mannréttindi – ekki forréttindi. Það er óumdeild söguleg staðreynd, að Eystrasaltsþjóðirnar voru sjálfstæði ríki og nutu sem slík viðurkenningar alþjóðasamfélagsins, þ.m.t. Sovétríkjanna. Í seinni heimsstyrjöldinni urðu þær fórnarlömb hernaðarinnrása, hernáms og að lokum innlimunar í Sovétríkin. Þjóðþing Sovétríkjanna (Congress of People´s Deputies) hefur nú viðurkennt ólögmæti þessara aðgerða með því að lýsa Molotov-Ribbentrop samninginn milli Hitlers og Stalíns „null and void“. Þegar ég yfirgaf ræðustólinn, gekk maður í veg fyrir mig, faðmaði mig og sagði: „Það eru forréttindi að vera fulltrúi smáþjóða og leyfast að segja sannleikann“. – „Leyft af hverjum?“, muldraði ég? Þetta var Max Kampelmann, víðkunnur Sovétfræðingur og einn af aðalsamningamönnum Bandaríkjanna í Genf. Sem ég stefndi að sæti mínu, gekk annar maður í veg fyrir mig, steytti hnefann og hrópaði: „Þú átt að skammast þín, Jón Baldvin; það var ekki satt orð í þessari endemisræðu þinni um samskipti Eystrasaltsþjóða og Sovétríkjanna“. Þetta var Juri Resetov, sovéskur mannréttindasérfræðingur – ef það er ekki „oxymoron“ – og síðar sendiherra Rússa í Reykjavík. Enginn hinna ráðherranna mælti orð af vörum. UPPGJÖRIÐ Í FYRSTU VIKU JANÚAR 1991 hafði Gorbachev samþykkt kröfu harðlínumanna um að láta til skarar skríða í Eystrasaltslöndum. Sérsveitir voru sendar á vettvang og skriðdrekarnir rúlluðu af stað. Ég var vakinn upp um miðja nótt með símhringingu frá Vilníus. Á hinum enda línunnar var Landsbergis. Hann sagði: „Ef þú meinar eitthvað með því, sem þú hefur sagt okkur til stuðnings, komdu strax til Vilníus. Rússarnir hafa ákveðið að ganga frá okkur. Nærvera utanríkisráðherra NATO skiptir máli“. Í bók minni „The Baltic Road to Freedom – Iceland´s Role“ lýsi ég þessari reynslu með eftirfarandi orðum: „Ég verð aldrei svo gamall, að ég gleymi þessum dögum. Hundruð þúsunda manna allt um kring. Þau stóðu við varðeldana í þessum bitra janúarkulda, héldust í hendur og sungu ættjarðarsöngva. Ég var vitni að því að þjóð, óvopnuð og ein og yfirgefin, horfðist í augu við byssuhlaupin í nafni frelsis og mannlegrar reisnar. Það voru vissulega forréttindi að fá að standa með fólkinu á þessari ögurstundu“. Herstjórnarllistin að baki ofbeldinu var sú sama og nú í Suður- og Austur-héruðum Úkraínu. Reynt var að setja á svið átök milli þjóðernisminnihluta til þess að réttlæta íhlutun Rauða hersins. Því næst átti að lýsa yfir neyðarástandi, leysa upp þingið og reka ríkisstjórnina frá völdum, í því skyni að koma aftur á lögum og reglu. Þetta hljómar kunnuglega. Fólk var drepið og limlest, bæði í Vilníus og Riga. Má vera, að koma Yeltsin til Tallinn hafi forðað ykkur frá sama hlutskipti? Við Landsbergis héldum ótal blaðamannafundi til að vekja athygli heimsins á ástandinu og skoruðum á Gorbachev að stöðva blóðbaðið. Til þess að fylgja málum eftir heimsótti ég Riga og Tallinn í sömu ferð. Við gáfum út sameiginlegar yfirlýsingar, þar sem málstaðurinn var skýrður og ofbeldið fordæmt. Krafist var friðsamlegra lausna. Sovétstjórnin brást við með því að kalla sendiherra sinn heim frá Reykjavík og sakaði íslensku ríkisstjórnina um „íhlutun um innri mál Sovétríkjanna.“ LÖGFRÆÐIÁLIT Ég tók þá ásökun grafalvarlega. Ég setti saman vinnuhóp sérfræðinga í alþjóðalögum með veigamiklu framlagi frá Eistlandi, sem skilaði fræðilegri greinargerð, þar sem sýnt var fram á með lagarökum, að Ísland væri ekki að blanda sér í sovésk innanríkismál; að Sovétríkin hefðu með mörgum alþjóðasamningum skuldbundið sig til að virða landamæri annarra ríkja; að Eystrasaltsþjóðirnar hefðu verið innlimaðar í Sovétríkin – ólöglega; og að þjóðþing Sovétríkjanna (Congress of People´s Deputies) hefði viðurkennt lögleysuna með því að lýsa Molotov-Ribbentrop samninginn „null and void“. Að lokum sagði þar, að aðgerðir Íslands varðandi endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltþjóða væru hluti af þeim róttæku breytingum á pólitísku landslagi í Evrópu, sem nú væri verið að semja um. Engar þessara breytinga, sem þegar væru staðfestar, hefðu getað átt sér stað nema fyrir frumkvæði Sovétríkjanna sjálfra. Þær væru því í fullu samræmi við yfirlýsta stefnu Sovétríkjanna. Við erum enn að bíða eftir svari við þessari fræðilegu greinargerð! Hvers vegna létu Kremlverjar staðar numið – á ystu nöf? Ég er ekki í minnsta vafa um svarið. Viðbrögð fólksins, sem óttalaust og óvopnað horfðist í augu við drápsvél skriðdrekanna, voru svo afdráttarlaus, að hefði verið beitt öllu afli, hefðu afleiðingarnar orðið blóðugasta fjöldamorð í Evrópu eftir stríð. Það var einum of mikið fyrir friðarverðlaunahafa Nóbels, Mikhail Sergeyevich Gorbachev að hafa á samviskunni. Ef viljinn til að beita ofbeldi er á þrotum, þýðir það endalok lögregluríkisins. Það var engin leið að halda Sovétríkjunum saman – án valdbeitingar. Það var ekki fyrr en síðar að við gerðum okkur grein fyrir því, að við hefðum orðið vitni að sögulegum atburðum – endalokum Sovétríkjanna. LOKAKAFLINN VALDARÁNSTILRAUNIN Í MOSKVU hófst 19da ágúst, 1991. Tveimur dögum síðar komu utanríkisráðherrar NATO saman í Brussel. Á þeirri stundu vissi enginn, hver færi með völdin í Kreml. Aðalritari NATO, Manfred Wörner, var beðinn um að freista þess að ná sambandi við Boris Yeltsin. Hálftíma síðar kom Wörner til baka með eftirfarandi yfirlýsingu frá Yeltsin: „Valdaránstilraunin væri runnin út í sandinn. Hann, Boris Yeltsin, væri nú leiðtogi lýðræðisaflanna. Lýðræðisöflin hefðu nú undirtökin. Yeltsin skoraði á utanríkisráðherra NATO ríkjanna, sem saman væru komnir í Brussel, að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að styðja við bakið á lýðræðisöflunum“. Þegar röðin kom að mér að bregðast við boðskap Yeltsin, lagði ég frá mér undirbúna ræðu, eins og í Kaupmannahöfn forðum, og talaði um hina gerbreyttu stöðu. Skv. útskrift sagði ég m.a. eftirfarandi: „Má ég minna á, að hingað til höfum við verið beðnir um að segja ekkert og gera ekkert, sem geti stefnt völdum Gorbachevs í hættu, því að þá kæmu harðlínumennirnir til valda, og þar með yrði friðarferlinu stefnt í voða? Þessi afstaða hefur nú reynst vera á misskilningi byggð. Harðlínumennirnir hefðu reynt að ná völdum, en mistekist. Gorbachev, sem hefði bara eitt markmið - að halda Sovétríkjunum saman undir nýrri stjórnarskrá - hefði misst völdin. Hinn nýi leiðtogi lýðræðisaflanna væri Boris Yeltsin. Þjóðþing Sovétríkjanna hefði þegar lýst Molotov-Ribbentrop samninginn „null and void“. Með því hefði hin nýja forysta Rússlands viðurkennt, að hernám og innlimun Eystrasaltsþjóðanna hefðu verið ólögleg. Í hálfa öld hefðu Eystrasaltsþjóðirnar mátt þola endurtekna nauðungarflutninga til Síberíu og undirokun tungu og menningar. Þess vegna bæri okkur siðferðileg skylda til að styðja endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsþjóða, ekki síður en annarra þjóða í Mið - og Austur Evrópu.“ Viðbrögðin við þessari ræðu voru kurteisleg þögn. Rétt er að hafa í huga, að þremur vikum áður, þann 1. ágúst 1991 hafði George H.W. Bush, Bandaríkjaforseti,haldið sína alræmdu „Kjúklingaræðu“ í Verkhovna Rada – þjóðþinginu í Úkraínu. Í þessari ræðu skoraði forsetinn á Úkraínumenn að „láta ekki stjórnast af öfgakenndri þjóðernishyggju“. Þeir ættu að „halda Sovétríkjunum saman í nafni friðar og stöðugleika“. Þremur vikum síðar lýstu Úkraínumenn yfir sjálfstæði. Og 140 dögum síðar voru Sovétríkin ekki lengur til. Yfirlýstri stefnu sjálfskipaðs forystumanns lýðræðisríkjanna hafði verið rækilega hafnað. FRUMKVÆÐIÐ Á leiðinni heim frá Brussel settist ég að í Sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn. Þaðan reyndum við langt fram á nótt að ná símasambandi við leiðtoga Eystrasaltsþjóðanna. Boðskapur minn var einfaldur: Það geysar valdabarátta í Kreml, og yfirlýst stefna Vesturveldanna hingað til hefur beðið skipbrot. Nú er rétti tíminn til athafna. Ég sendi nýskipuðum utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna formleg boðsbréf um að koma til Reykjavíkur þegar í stað. Þar myndum við árétta viðurkenningu á endurheimtu sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og koma á formlegum diplómatískum samskiptum. Ég var sannfærður um, að við ríkjandi aðstæður myndu aðrar þjóðir fylgja fordæmi okkar. Ferlið myndi reynast óafturkallanlegt. Það reyndist vera rétt mat. Utanríkisráðherrarnir Lennart Meri, frá Eistlandi (síðar forseti 1992-2000), Janis Jurkans frá Lettlandi og Algirdas Saudargas frá Litháen komu saman í Höfða 26. ágúst 1991. Það var táknrænt, að þetta var á sama stað og Reagan – Gorbchev höfðu haldið leiðtogafund sinn árið 1986 – fund, sem síðar reyndist hafa verið upphafið að endalokum Kalda stríðsins. Lennart Meri talaði fyrir okkur öll, þegar hann sagði: „Seinni heimsstyrjöldin byrjaði þann 23. ágúst 1939 með undirritun Molotov-Ribbentrop samningsins og leyniskjala hans, að undirlagi Hitlers og Stalíns. Með undirritun okkar hér í dag lýkur Seinni heimsstyrjöldinni í okkar heimshluta. Við erum hingað komin til að sameinast aftur fjölskyldu lýðræðisríkja Evrópu“. Blekið var ekki fyrr þornað á undirskriftum okkar en boð tóku að berast frá höfuðborgum Evrópu – þar sem talsmönnum sjálfstæðishreyfinganna hafði áður verið úthýst – til utanríkisráðherra Eystrasaltsþjóðanna um að koma þar við og endurtaka það sem gert hafði verið i Reykjavík. Bandaríkin náðu því að vera degi á undan Sovétríkjunum. Nokkrum vikum seinna voru Sovétríkin ekki lengur til. LÆRDÓMAR? Þið hafið náð eftirtektarverðum árangri í umskiptunum frá nýlendustjórn til sjálfstæðis; frá miðstýrðu lögregluríki til valddreifðs markaðshagkerfins; og frá einræði til lýðræðis. Þið hafið byggt upp helstu stofnanir lýðræðisins og aðlagast innri markaði Evrópu og alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Þið vissuð af eigin reynslu, að þið þurftuð að festa þessar stofnanir í sessi og að taka út tryggingu fyrir ykkar brothætta sjálfstæði. Þetta tókst ykkur með því að ganga í Evrópusambandið og NATO. Nú sitjið þið við borðið, þar sem ákvarðanirnar eru teknar. Þið hafið lært mikið af þessari reynslu og getið deilt henni með ykkar umsetnu nágrönnum – Úkraínu. Úkraínumenn lýstu einnig yfir sjálfstæði. Þeir gerðu það í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu, sem sýndi, að meira en 90% þjóðarinnar – og meirihluti í öllum héruðum, líka þeim þar sem Rússar eru fjölmennastir – studdi sjáflstæðisyfirlýsinguna.Bandarísk stjórnvöld sannfærðu ríkisstjórn Úkraínu á sínum tíma um, að rétt væri að afhenda öll kjarnavopn á yfirráðasvæði Úkraínu í hendur Rússum. Í staðinn lýstu ríkisstjórnir Bandaríkjanna, Rússlands og Bretlands því yfir, að þær ábyrgðust landamæri Úkraínu. Þessar ríkisstjórnir hafa ekki staðið við sín loforð. Árásarstríð Pútins gegn Chechnya, Georgiu og nú Úkraínu taka af öll tvímæli um, að hann stefnir að endurreisn rússneska heimsveldisins. Hann vill gera „Russia great again“ – að kunnri fyrirmynd. Úkraínumenn hafa getað varist árásum Pútins. En þeir hafa ekki getað endurheimt héruðin í Suð-Austur Ukraínu, sem Rússar höfðu áður yfirtekið. Úkraínumenn eru ekki bara að berjast fyrir friðhelgi eigin lands. Þeir eru að berjast fyrir fullveldisrétti sínum til að ráða því sjálfir, í hvers konar þjóðfélagi þeir vilja lifa. Eins og þið, vilja þeir aðild að Evrópusambandinu. Eins og þið, vilja þeir búa við lýðræði og réttarríki. Þeirra stríð er því líka ykkar stríð - okkar stríð. Þess vegna eiga leiðtogar vestrænna lýðræðisríkja að láta Úkraínumönnum í té þau tæki sem þarf til að vinna þetta stríð. Ef þeir standa ekki við það, ber ykkur að leiðrétta stefnuna. Ef Trump vinnur forsetakosningarnar í Bandaríkjunum undir árslok og Ameríka yfirgefur þar með Evrópu og NATO, þá er það ykkar skylda að tryggja, að Evrópa haldi áfram að styðja Úkraínu í þessu stríði – fyrir lýðræðið. Það er lexían, sem við lærum af þessari sögu. Höfundur var utanríkisráðherra Íslands árin 1988 til 1995.
Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar
Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar
Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt skrifar
Skoðun „Stórfelldir og siðlausir fjármagnsflutningar“ - Áskorun á Ole Anton Bieltvedt Hjalti Þórisson skrifar
Skoðun Tjáningarfrelsið, ábyrgð og Snorri Másson Bjarndís Helga Tómasdóttir ,Kári Garðarsson skrifar