Körfubolti

Körfuboltakvöld: Eru Stólarnir komir í gang eftir gleði í Garða­bænum?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tindastólsliðið fagnar hér sigri á Stjörnunni í Garðabænum í síðustu umferð.
Tindastólsliðið fagnar hér sigri á Stjörnunni í Garðabænum í síðustu umferð. Vísir/Diego

Tindastólsliðið hefur unnið tvo leiki í röð í Subway deild karla í körfubolta og hlutirnir líta aðeins betur út en fyrir stuttu þegar liðið tapaði hverjum leiknum á fætur öðrum.

Stólarnir unnu lífsnauðsynlegan sigur á Stjörnunni í Garðabæ í síðustu umferð og Subway Körfuboltakvöld fór aðeins yfir þýðingu þessa sigurs fyrir liðið í baráttu Íslandsmeistaranna fyrir sæti í úrslitakeppninni

„Þetta er stórt. Stjarnan er ekkert með lélegt lið þó að þeir séu í vandræðum. Eru Stólarnir komir í gang,“ spurði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Subway Körfuboltakvölds.

„Ég get ekki alveg keypt það að þeir séu komnir í gang. Mér fannst Stólarnir ekki vera frábærir. Þeir unnu leikinn og gerðu það mjög vel í hörðum og erfiðum leik. Mér fannst þetta ekki líta út eins og lið sem væri komið í gang. Skref í rétta átt en þeir þurfa að sýna mér töluvert meira í næstu fimm leikjum en þetta,“ sagði Ómar Sævarsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

„Ég held að þeim líði rosalega vel eftir þennan leik. Að vinna leik þegar hitti liðið mætir ekki tilbúið og þú vinnur með fjörutíu stigum. Það getur verið svikalogn en þarna voru þeir ‚grinding' í gegn á erfiðum útileik með varnarleik. Alla vegna væri ég mjög sáttur í rútunni á leiðinni norður,“ sagði Teitur Örlygsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

Stefán Árni fór yfir lokasekúndur leiksins þar sem Tindastólsmenn náðu innbyrðis stöðu á móti Stjörnunni en töpuðu henni síðan aftur á síðustu sekúndunni.

Það má horfa á umfjöllunina hér fyrir neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld: Staðan á Tindastólsliðinu eftir gleði í Garðabænum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×