Hún heldur því einnig fram að hún hafi verið áreitt og vegið hefði verið að æru hennar vegna þess að hún hafi ekki deilt skoðunum forsvarsmanna fyrirtækjanna um Black Lives Matter hreyfinguna, fornöfn fólks og forsetakosningarnar 2020.
Hún krefst þess að fyrirtækið verði skikkað til að ráða hana aftur og að hún fái allt að 75 þúsund dali í skaðabætur og þar að auki frekari skaðabætur sem ákvarðaðar yrðu í dómsal, samkvæmt frétt Reuters.
Elon Musk fjármagnar lögsókn Carano en hann hefur heitið því að borga brúsann fyrir lögsóknir fólks sem telur sig hafa verið beitt mismunun vegna skoðana þeirra á samfélagsmiðli auðjöfursins X, áður Twitter.
Hann hefur einnig um nokkuð skeið verið reiður í garð Disney og forsvarsmanna fyrirtækisins, eftir að þeir tóku þá ákvörðun að hætta að auglýsa á X. Það var meðal annars gert vegna ummæla Musks á X um gyðinga.
Á ráðstefnu í nóvember sagði Musk Bob Iger, forstjóra Disney, að fara í rassgat.
Carano var rekin frá hinum gífurlega vinsælu þáttum eftir að hún birti færslur á Twitter og öðrum samfélagsmiðlum þar sem hún bar meðal annars meintar þjáningar hægri sinnaðs fólks á samfélagsmiðlum við þjáningar gyðinga í helförinni og líkti fólki sem níddist á hægri sinnuðu fólki við nasista.
Hún hafði einnig birt færslur þar sem hún tók undir lygar fólks um að forsetakosningunum 2020 hefðu verið stolið af Donald Trump og gagnrýndi fólk fyrir að vera með andlitsgrímur. Umboðsstofa hennar, UTA, hætti á sama tíma að starfa fyrir hana, samkvæmt frétt Hollywood Reporter.
Carano heldur því fram að forsvarsmenn Disney hafi reynt að skikka hana til að funda með fólki frá réttindasamtökum hinsegin fólks og krafist þess að hún bæðist afsökunar. Hún segist hafa neitað því og þá hafi henni verið sagt að hitta Kathleen kennedy, yfirmann Lucasfilm, og 45 hinsegin starfsmenn fyrirtækisins.
Hún segist einnig hafa neitað því og að í kjölfarið hafi hún verið rekin.
Auk þess að segja að hún hafi verið ranglega rekin, heldur Carano því einnig fram að kyn hennar hafi skipt máli, þar sem karlkyns leikarar í þáttunum hafi ekki verið reknir fyrir að opinbera skoðanir sínar. Vísar hún til færslu leikarans Pedro Pascal, sem leikur aðalhlutverkið í Mandalorian, frá árinu 2017. Þar líkti hann Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, við Hitler.
Lék í mynd fyrir Breitbart News
Síðasta kvikmyndin sem Carano lék í var myndin My Son Hunter, sem fjallar um Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, og son hans Hunter Biden. Myndin er skáldskapur sem snýr að ásökunum Donalds Trump og annarra um meinta spillingu feðganna. Hún er töluvert umdeild en gagnrýnandi Guardian sagði hana til að mynda vera eingöngu fyrir „jaðar-geðsjúklinga“.
Myndin var gefin út af miðlinum Breitbart News, sem er í eigu Steve Bannon. Hann var fyrrverandi ráðgjafi Trumps og náinn bandamaður hans. Eitt af síðustu embættisverkum Trumps í embætti forseta var að náða Bannon, sem hafði verið ákærður fyrir fjársvik í tengslum við fjáröflun vegna múrsins sem Trump vildi reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.