Íslenski boltinn

Lætur bæjar­yfir­völd á Ísa­firði fá það ó­þvegið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Samúel Samúelsson eftir að Vestri tryggði sér sæti í efstu deild.
Samúel Samúelsson eftir að Vestri tryggði sér sæti í efstu deild. Vísir/Stöð 2 Sport

Formaður meistaraflokksráðs Vestra í fótbolta, Samúel Samúelsson - betur þekktur sem Sammi, er heldur betur ósáttur með bæjaryfirvöld á Ísafirði þessa dagana. Lét hann gamminn geysa á Facebook-síðu sinni.

Vestri mun leika í Bestu deild karla á komandi leiktíð eftir að hafa komist upp í gegnum umspil Lengjudeildarinnar á síðasta ári. Mikil spenna er í bænum en Sammi telur þó bæinn ekki standa nægilega vel við bakið á knattspyrnudeildinni. Hann segir einfaldlega allt skotið niður.

„Það er hreint með ólíkindum hvernig Ísafjarðarbær reynir markvisst að vinna gegn knattspyrnu hérna í bænum. Allar þær leiðir sem við kjósum og viljum vinna í sátt og samlyndi með bænum eru skotnar niður,“ sagi Sammi og heldur áfram.

Kæmi mér ekki á óvart ef að Ísafjarðarbær myndi hreinlega óska eftir því að það verði ekki spilaður fótbolti hér í bæ. Það er hreinlega allt gert til að sjá til þess að það kosti vandræði og en meiri vinnu heldur en fyrir er. Takk kærlega fyrir bæj­arstjórn Ísafjarðarbæjar!“

Fyrr í dag fundaði bæjarstjórn Ísafjarðar og þar var „Þjónusta á knattspyrnusvæði á Torfnesi“ fyrsta mál á dagskrá. Þar segir:

„Á 1270. fundi bæjarráðs, þann 22. janúar 2024, var lagt fram erindi frá knattspyrnudeild Vestra þar sem óskað var eftir samningi við Ísafjarðarbæ um umsjá knattspyrnusvæðis á Torfnesi. Bæjarráð bókaði að það fæli bæjarstjóra að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum og leggja málið fyrir að nýju.“

„Er nú málið lagt fyrir að nýju ásamt minnisblaði Hafdísar Gunnarsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, dags. 1. febrúar 2024, varðandi þau verkefni sem vallarstarfsmaður þarf að sinna á knattspyrnusvæðinu. Jafnframt er lögð fram viðhaldsáætlun fyrir gervigrasið sem unnin er af Polytan, framleiðanda gervigrassins.“

„Fulltrúar Í-lista í bæjarráði telja rétt að starfsmenn íþróttamannvirkja skuli sjá um knattspyrnusvæðið á Torfnesi og Vallarhús. Bæjarstjóra falið að taka málið aftur upp á fundi bæjarráðs 8. apríl 2024. Áréttað að gerðar verði ítarlegar verklagsreglur.“

Vestri mætir Fram í Úlfarsárdal í 1. umferð Bestu deildar karla þann 7. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×