Erlent

Segja að­gerðum í Khan Younis að ljúka og beina sjónum að Rafah

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúar flýja Khan Younis á mánudag, eftir harðar aðgerðir Ísraelsmanna á svæðinu.
Íbúar flýja Khan Younis á mánudag, eftir harðar aðgerðir Ísraelsmanna á svæðinu. AP/Fatima Shbair

Ísraelsher er nú að ljúka aðgerðum sínum í Khan Younis, þar sem tekist hefur að uppræta Hamas, og mun næst beina sjónum sínum að Rafah.

Þetta sagði Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísrael, á Twitter/X og bætti því við að stöðugur þrýstingur á Hamas væri helsta von Ísraelsmanna um að endurheimta gíslana sem teknir voru 7. október síðastliðinn.

Ráðherrann sagði herinn myndu halda áfram aðgerðum þar til markmiðum væri náð en þau eru að útrýma Hamas og frelsa gíslana.

Orð Gallant vekja ugg en gríðarlegur fjöldi Palestínumanna dvelur nú í Rafah eftir að hafa neyðst til að flýja heimili sín annars staðar á Gasa. Borgin er á syðsta hluta svæðisins og erfitt að sjá hvert almennir borgara eiga að geta flúið átökin, þar sem Ísraelsmenn og Egyptar hafa ekki viljað hleypa þeim yfir landamærin.

Viðræður standa yfir um mögulegt vopnahlé, með milligöngu Katar, Egyptalands og Bandaríkjanna. Talsmaður utanríkisráðuneytis Katar segir Ísraelsmenn hafa samþykkt fyrirliggjandi tillögu og henni hafi verið vel tekið af fulltrúum Hamas.

AFP hefur hins vegar eftir heimildarmanni með tengsl inn í Hamas að fullyrðingar talsmannsins væru ótímabærar og að enn ætti eftir að ná samkomulagi um grundvallaratriði.

Tillögurnar eru sagðar fela í sér sex vikna hlé á átökum og frelsun gísla í haldi Hamas gegn lausn einstaklinga sem haldið er í fangelsum í Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×