Innlent

Mikill við­búnaður eftir að flug­eldur var sprengdur inni í Austur­bæjar­skóla

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Húsnæði Austurbæjarskóli á Skólavörðuholti.
Húsnæði Austurbæjarskóli á Skólavörðuholti. Vísir

Mikill viðbúnaður var við Austurbæjarskóla í Reykjavík í dag, eftir að útkall barst um hugsanlegan eld í skólanum eftir að flugeldur var sprengur innadyra. Ekki reyndist um eld að ræða en slökkvilið reykræsti húsnæðið. 

Í tölvupósti sem Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri Austurbæjarskóla sendi á foreldra og forráðamenn fyrir stundu, segir:

„Í dag gerðist sá alvarlegi atburður að sprengdur var flugeldur innandyra í unglingadeild. Enginn hlaut skaða af. Lögregla og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins voru kölluð á staðinn, skólinn rýmdur og atvikið bókað. Enginn hefur tjáð sig um eða gengist við verknaðinum og er málið því í skoðun.“

Þá segir í tölvupóstinum að allar upplýsingar um málið séu vel þegnar auk þess sem óskað er eftir því að foreldrar ræði við börn sín um alvarleika málsins.

Tilkynning um hugsanlegan eld 

Hvorki skólastjóri né aðstoðarskólastjóri vildu tjá sig um málið í samtali við fréttastofu, en Jón Kristinn Valsson, varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir að útkall hafi borist klukkan 13:15 í dag.

Tilkynning barst upphaflega um hugsanlegan eld í skólanum og því var mikill viðbúnaður. Jón segir að um leið og fyrsti bíll mætti á staðinn hafi verið ljóst að ekki var um eld að ræða og því hafi verið dregið úr viðbragði. 

Einn bíll varð eftir og reykræsti húsnæðið en ekki var þörf á að rýma skólann. Þá segir Jón að allt líti út fyrir að flugeldur hafi verið sprengur inni í húsinu en það sé þó ekki staðfest. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×