Fótbolti

Birnir Snær til Sví­þjóðar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birnir Snær mun spila í bláu á komandi leiktíð.
Birnir Snær mun spila í bláu á komandi leiktíð. @HalmstadsBK

Sænska knattspyrnufélagið Halmstad hefur tilkynnt að Birnir Snær Ingason, fráfarandi leikmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings, sé nýjasti leikmaður félagsins. Ekki kemur fram hversu langan samning Birnir Snær gerir við félagið.

Birnir Snær var frábær þegar Víkingur vann tvöfalt síðasta sumar. Var þessi 27 ára gamli leikmaður valinn besti leikmaður deildarinnar af kollegum sínum í Bestu deildinni. Hann gekk í raðir Víkings árið 2022 og sér ekki eftir því.  Áður hafði hann leikið fyrir HK, Val og uppeldisfélag sitt Fjölni. 

Eftir að síðasta tímabil kláraðist fór orðrómur á kreik að Birnir Snær gæti hugsað sér að halda erlendis í atvinnumennsku. Sá orðrómur er nú orðinn að veruleika en Halmstad kynnti vængmanninn öfluga á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Halmstad endaði í 12. sæti á síðustu leiktíð með 36 stig. Þó það hafi verið 13 stig niður í fallsæti þá var liðið aðeins þremur stigum frá sætinu sem fer í umspil við liðið í 3. sæti B-deildar um sæti í efstu deild á næstu leiktíð.

Sænska liðinu gekk bölvanlega að skora á síðustu leiktíð og á Birnir Snær að gefa liðinu aukna breidd fram á við en hann skoraði 12 mörk og gaf 8 stoðsendingar í 25 leikjum í Bestu deildinni á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×