Birnir Snær var frábær þegar Víkingur vann tvöfalt síðasta sumar. Var þessi 27 ára gamli leikmaður valinn besti leikmaður deildarinnar af kollegum sínum í Bestu deildinni. Hann gekk í raðir Víkings árið 2022 og sér ekki eftir því. Áður hafði hann leikið fyrir HK, Val og uppeldisfélag sitt Fjölni.
Eftir að síðasta tímabil kláraðist fór orðrómur á kreik að Birnir Snær gæti hugsað sér að halda erlendis í atvinnumennsku. Sá orðrómur er nú orðinn að veruleika en Halmstad kynnti vængmanninn öfluga á samfélagsmiðlum sínum í dag.
Välkommen till HBK
— Halmstads Bollklubb (@HalmstadsBK) January 22, 2024
pic.twitter.com/iDa9wzf7cF
Halmstad endaði í 12. sæti á síðustu leiktíð með 36 stig. Þó það hafi verið 13 stig niður í fallsæti þá var liðið aðeins þremur stigum frá sætinu sem fer í umspil við liðið í 3. sæti B-deildar um sæti í efstu deild á næstu leiktíð.
Sænska liðinu gekk bölvanlega að skora á síðustu leiktíð og á Birnir Snær að gefa liðinu aukna breidd fram á við en hann skoraði 12 mörk og gaf 8 stoðsendingar í 25 leikjum í Bestu deildinni á síðustu leiktíð.