„Grindavík er eitthvað glæsilegasta sveitarfélag á landinu. Þetta er sterkt sveitarfélag félagslega og efnahagslega. Þarna eru búin til alveg gríðarleg verðmæti í gegnum árin og áratugina. Við höfum öll fengið að njóta þess beint eða óbeint. Nú stöndum við líklegast frammi fyrir stærstu áskorun sem hefur verið lögð fyrir íslenska þjóð,“ segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Bítinu á Bylgjunni.
Fjárhagslegir og andlegir fjötrar
Hann segir að sjálfsögðu vonir uppi um að Grindavík verði byggð aftur upp í náinni framtíð en ljóst sé að það gerist ekki á næstu árum.
„Við getum ekki skilið þetta fólk eftir þannig að því séu allar bjargir bannaðar og það sé upp á aðra komið. Það er ekki í genum Grindvíkinga að vera upp á aðra komna. Ég sé ekki aðra leið en að við sameiginlega, ríkið, bjóðist til að kaupa allt íbúðarhúsnæði í Grindavík. Inni í því eru eignir sem Náttúruhamfaratrygging dæmir ónýtt og bætir það tjón,“ segir Óli Björn.
Verkefnið sé sameiginlegt og tryggi Grindvíkingum tækifæri til að taka ákvörðun um eigin framtíð.
„Koma sér fyrir á eigin forsendum, byggja heimili sitt á ný og vera ekki undir það komnir hvar tekst að finna einhverjar leiguíbúðir hjá hinu opinbera. Gefið fólkinu færi á að ná stjórn á sínu lífi og veita þeim þetta svigrúm. Þetta er fjárhagslegt svigrúm sem þau þurfa á að halda,“ segir Óli Björn.
„Eignir þeirra, ævistarfið í flestum tilfellum, er orðið verðlaust, að minnsta kosti enn sem komið er. Það þarf að leysa þau úr þessum fjárhagslegu fjötrum, það viljum við gera og jafnframt eru þetta andlegir fjötrar líka.“
Mjög bjartsýnn á að ríkið kaupi Grindvíkinga út
Hann segir það versta sem hægt sé að gera fólki vera að lifa í nagandi óvissu.
„Við skuldum Grindvíkingu þetta alveg eins og við skuldum hvoru öðru það að rétta fram hjálparhönd þegar á bjátar. Það er samfélagið sem ég vil búa í og ég hygg að það sé samfélag sem yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill að við búum í.“
Hann segir hárrétt að þetta verði áfall fyrir íslenska ríkið, ríkissjóð og skattgreiðendur en stóra áfallið sé að þetta öfluga samfélag sé lamað til lengri tíma.
„Ég er mjög bjartsýnn á það [að þessi leið verði farin]. Nú verður maður auðvitað að tala varlega og vera ekki að byggja upp of miklar væntingar. Þau úrræði, sem gripið verður til, þau geta ekki orðið með öðrum hætti en í náinni samvinnu og samráði við Grindvíkinga sjálfa.“