Körfubolti

Shaq að­stoðaði Barkl­ey við ný­árs­heitið

Siggeir Ævarsson skrifar
Það var kátt á hjalla í stúdíóinu
Það var kátt á hjalla í stúdíóinu Skjáskot TNT

NBA goðsögnin Charles Barkley setti sér göfugt nýársmarkmið um áramótin: Að hætta að drekka Diet Coke.

Barkley hefur löngum verið þekktur fyrir að leyfa sér margt í mat og drykk, en á leikmannaferli sínum fékk hann sér gjarnan sömu máltíðina fyrir leik: Tvo fiskborgara á McDonald's, stórar franskar og að sjálfsögðu Diet Coke til að skola þessu öllu niður.

Nú hefur kappinn ákveðið að hætta í kókinu og ætlar að vera duglegri við að drekka vatn, þó svo að hann viðurkenni að honum finnist bragðið af því ekki upp á marga fiska.

Til að aðstoða Barkley við að standa við nýársheitið greip félagi hans í TNT teyminu, Shaquille O'Neal, fram fyrir hendurnar á honum og dró undan borðinu birgðir Barkleys af kókdósum og dreifði þeim meðal þáttastjórnendanna sem létu ekki sitt eftir liggja og gúlluðu innihaldi dósanna í sig.

Þess má til gamans geta að Shaq er með auglýsingasamning við Pepsi en ekki liggur ljóst fyrir hvort um samningsbrot hjá Shaq hafi verið að ræða þegar hann ákvað að drekka Coke í beinni útsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×