Innlent

Þjófnaðir, „flug­elda­stríð“ og ör­væntinga­fullir Arsenal-að­dá­endur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti útkalli í heimahúsi í nótt þar sem maður hafði verið sleginn með spýtu í höfuðið.
Lögregla sinnti útkalli í heimahúsi í nótt þar sem maður hafði verið sleginn með spýtu í höfuðið. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti mörgum og fjölbreyttum verkefnum í nótt og var meðal annars kölluð til vegna þjófnaða, „flugeldastríðs“ og manns sem var að afklæðast úti á götu.

Tilkynnt var um þjófnað í fataverslun í miðbænum, þrír eru grunaðir og málið í rannsókn. Þá var tilkynnt um þjófnað á úlpu hótelgestar en greiðslukort sem voru í úlpuni voru notuð í verslun í miðbænum. Lögregla var einnig kölluð til vegna þjófnaðar ungmennis og var það mál unnið með foreldrum.

Einn var handtekinn fyrir að brjóta rúðu í leigubíl en sá reyndist í mjög svo annarlegu ástandi. Þá var tilkynnt um mann að öskra í miðbænum en hann fannst ekki. Önnur tilkynning barst um öskur, að þessu sinni frá íbúð, en þar reyndist um að ræða örvæntingafulla Arsenal-aðdáendur.

Tilkynning barst um mann sem var sagður vera að afklæðast úti en engar frekari upplýsingar er að finna um málið í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar. Þá var einnig látið vita af „flugeldastríði“ en þegar að var komið var enga að sjá, aðeins tómar flugeldapakkningar á víð og dreif.

Lögreglu barst fjöldi tilkynninga um umferðaróhöpp í borginni í gærkvöldi og nótt, þar sem meðal annars var ekið á aðrar bifreiðar, staur og vegrið. Þá var hugað að einum ökumanni sem var sagður hafa lagt bifreið sinni á akrein og virtist ofurölvi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×