Sameinuðu þjóðirnar segja að einungis tíu prósent af þeim neyðarbirgðum sem nauðsynlegar eru hafi borist. Samkvæmt Reuters segja Ísraelar að 5.405 flutningabílum með matvæli, vatn, lyf og aðrar nauðsynjar hafi verið hleypt inn á Gasaströndina frá því innrás ísraelska hersins hófst.
Harðir bardagar geisa á norðurhluta Gasastrandarinnar og þá sérstaklega í Jabalya, þar sem Hamas-liðar segjast hafa grandað fimm ísraelskum skriðdrekum og fellt eða sært áhafnir þeirra. Ísraelar segjast aftur á móti nærri því að ná fullum yfirráðum á svæðinu og að undirbúningur fyrir hernaðaraðgerðir á suðurhlutanum sé í undirbúningi.
Hundruð þúsunda af um 2,3 milljónum íbúa Gasastrandarinnar hafa flúið til suðurs en sitja þar föst.
AP fréttaveitan hefur eftir hjálparsveitum og starfsmönnum sjúkrahúsa á Gasa að rúmlega níutíu manns hafi fallið í árásum Ísraela á tvö íbúðarhús í Gasaborg í norðurhlutanum í gær. Þar af eru 76 manns úr sömu fjölskyldunni en árásirnar eru einhverjar þær mannskæðustu frá því innrás Ísraela hófst.
Meðal þeirra sem féllu í árásunum var Issam al-Mughrabi, sem hefur lengi starfað fyrri Sameinuðu þjóðirnar á Gasaströndinni, eiginkona hans og fimm börn þeirra.
Í heildina hafa rúmlega tuttugu þúsund manns fallið í árásum Ísraela, samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á Gasa, sem Hamas stýrir. 53 þúsund eru sögð hafa særst í árásunum.
Nærri því 85 prósent íbúa hafa þurft að flýja heimili sín og rúm hálf milljón manna svelta, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum og öðrum samtökum.