Faruk Koca, forseti Ankaragucu, ruddist inn á völlinn eftir leikinn gegn Caykur Rizespor og kýldi Meler í jörðina. Stuðningsmenn Ankaragucu brutust líka inn á leikvanginn og það var líka sparkað í Meler þegar hann lá í grasinu.
Öllum leikjum í Tyrklandi var frestað um tíma, forsetinn handtekinn og svo dæmdur í ævilangt bann. Ankaragucu þarf jafnframt að greiða háa sekt og spila næstu fimm heimaleiki sína fyrir luktum dyrum.
Meler hefur nú tjáð sig um árásina sem hann varð fyrir í síðustu viku.
„Nei, ég fyrirgef honum ekki,“ sagði dómarinn aðspurður hvort hann ætli að fyrirgefa forsetanum sem kýldi hann.
„Sá sem gerði þetta kýldi mig. En spörkin sem ég fékk þar sem ég lá í grasinu eru eitthvað sem ég mun aldrei gleyma svo lengi sem ég lifi. Vegna þess mun ég aldrei fyrirgefa. Ég fyrirgef ekki á nokkurn hátt. Ég mun aldrei fyrirgefa þeim sem ollu þessu og gerðu þetta.“
Meler er einn fremsti dómari Tyrkja. Hann hefur dæmt í úrvalsdeildinni þar í landi síðan 2015 og varð FIFA-dómari tveimur árum síðar.