Af þeim tíu sem gistu í fangaklefum lögreglunnar voru sex handteknir vegna líkamsárásar. Tveir þeirra einnig vegna eignaspjalla og annar fyrir að tálma störf lögreglu og fylgja ekki fyrirmælum lögreglunnar og hinn fyrir vörslu vímuefna.
Ekið á tré og gengið í vitlaust hús
Þónokkur mál komu upp þar sem er grunur á að ökumenn hafi ekið undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Þá var einnig nokkur fjöldi mála þar sem lögregla aðstoðaði fólk í annarlegu ástandi, bæði í miðbænum og öðrum borgarhlutum. Einhverjir þeirra voru vistaðir í fangaklefa á meðan aðrir voru aðstoðaðir heim til sín.
Einn hafði sem dæmi ráfað inn í hús sem hann átti ekki heima í miðbænum en var svo hjálpað heim. Í Hafnarfirði var ofurölvi manni komið til aðstoðar sem lá úti á götu. Honum var ekið heim. Sá þriðji ók bíl sínum inn í garð og á tré og var vistaður í fangaklefa á meðan bíllinn var dreginn á brott með kranabíl.
Þá er einnig í dagbók lögreglunnar greint frá eldi í íbúð í hverfi 104.